133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:00]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þingmanns var um margt merkileg. Það var … (Gripið fram í: Hún var skemmtileg.) Já, og skemmtanagildið var töluvert æðilengi, sérstaklega þegar hv. þingmaður sagði næstum því í öðru hverju orði varaformaður, varaformaður og eyddi miklum og löngum tíma í að fjalla um varaformann. Maður hafði á tilfinningunni mjög lengi að hv. þingmaður hefði miklu meiri löngun til að fjalla um annan varaformann, þann sem kom honum í þessa óskaplega erfiðu stöðu sem hann er búinn að vera í nú ár eftir ár.

Væntanlega hefur hv. þingmann langað til að fjalla t.d. um vinnubrögðin um ESA-skjölin enda hefur hv. þingmaður sagt í fjölmiðlum að vinnubrögðin hafi verið ótæk, óásættanleg. Hv. þingmaður lét þess þó ógetið núna.

Nú spyr ég, herra forseti: Var ekki stór hluti af ræðu hv. þingmanns um varaformann hans með öfugum formerkjum eða var hann að nota hina frægu (Forseti hringir.) Albaníu-aðferð við að skamma rangan varaformann?