133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að hv. þingmaður er kjarnyrtur mjög og ég veit að hann á eftir að nýta ræðutímann vel á eftir varðandi þessi málefni.

Varðandi spurninguna sem tengist ESA-skjölunum er það alveg ljóst, eins og ég sagði áðan — hv. þingmaður fór ekki alveg rétt með, kannski engin nýlunda — að ef menn hefðu lesið skjölin hefðu þeir mátt sjá að samskiptin mundu halda áfram. Við vitum líka að samskiptunum mun ekki ljúka fyrr en þetta mál er komið í höfn, búið að landa því. Þá fyrst getur ESA gefið út endanlegt bréf. Það getur ekki gefið út endanlegt bréf fyrr en við erum búin að samþykkja þetta frumvarp þannig að þá kemur nákvæmlega í ljós hvernig við ætlum að haga almannaþjónustukvöð Ríkisútvarpsins gagnvart samkeppnisþjónustu þess. Menn máttu sjá og vita að samskipti ESA og stjórnvalda mundu halda áfram, og þau munu halda áfram. (Forseti hringir.)