133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:19]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Byrgismálið er mjög alvarlegt mál og félagsmálaráðherra staðfestir fyrir sitt leyti þá ábyrgð sem á því embætti hvílir. Hæstv. ráðherra Magnús Stefánsson er veðurtepptur erlendis á þessari stundu.

Frá 1999 hefur Alþingi veitt Byrginu fjárstuðning á fjárlögum. Fram til 2002 höfðu rekstraraðilar Byrgisins samskipti við ýmsa aðila innan stjórnkerfisins, m.a. við utanríkisráðuneytið vegna húsanna í Rockville. Síðari hluta ársins 2002 ákvað þáverandi forsætisráðherra að félagsmálaráðuneytið tæki við þessum samskiptum en þá hafði utanríkisráðuneytið upplýst að Byrgið yrði að hverfa frá Rockville með starfsemi sína.

Í janúar 2002 lauk Aðalsteinn Sigfússon við úttekt fyrir utanríkisráðuneytið um starfsemi Byrgisins. Í niðurstöðum kemur m.a. fram að þörf sé á því úrræði sem Byrgið bauð. Einnig er þar fjallað um fjármál Byrgisins. Það er rangt að skýrslu þessari hafi verið stungið undir stól. Við hana var stuðst í því starfi sem í hönd fór. Þáverandi utanríkisráðherra vísaði til úttektarinnar í svari við fyrirspurn á Alþingi hinn 13. febrúar 2002 og úttektarinnar er getið í bréfi félagsmálaráðuneytis til fjárlaganefndar í september 2003. Þessar upplýsingar lágu því fyrir á þessum tíma.

Síðari hluta ársins 2002 og fram á árið 2003 var mikil umfjöllun á Alþingi, í ríkisstjórn og í fjölmiðlum um fjárþörf Byrgisins. Mikill þverpólitískur stuðningur og almennur þrýstingur var á stjórnvöld að leysa málefni Byrgisins með húsnæði og auknum fjárframlögum. — Þetta er það sem hv. þingmaður var að spyrja um. — Hófust þá viðræður við fulltrúa Byrgisins undir forustu félagsmálaráðuneytisins en með aðkomu utanríkisráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Var yfirlýsing undirrituð í apríl 2003 þar sem sett voru skilyrði fyrir áframhaldandi stuðningi við starfsemina.

Eitt af þeim var að skipulagsskrá fyrir rekstrarfélag hefði verið samþykkt og send til skráningar. Í framhaldi af þessu var stofnað Byrgið, líknarfélag – sjálfseignarstofnun og það skráð hjá réttum opinberum aðila. Jafnframt ákvað ríkisstjórnin að festa kaup á Efri-Brú í Grímsnesi og gerðu Fasteignir ríkissjóðs afnotasamning við rekstraraðila Byrgisins um húseignirnar vorið 2003. Frá þessum tíma hafa greiðslur af fjárlögum runnið til Byrgisins, líknarfélags – sjálfseignarstofnunar og í því sambandi höfð hliðsjón af yfirlýsingu um styrk frá því í október 2003. Ekki voru taldar forsendur fyrir því að gera þjónustusamning enda var ríkið í þessu tilviki ekki að kaupa þjónustu sem það hefði ella þurft að sinna sjálft.

Byrgið og fjölmörg önnur félagasamtök fá á hverju ári styrki greidda á grundvelli fjárlaga. Af greinargerð Ríkisendurskoðunar frá því í janúar verður ekki dregin önnur ályktun en að rekstraraðilar Byrgisins hafi brugðist því trausti sem þeim var sýnt. Í fyrrnefndri yfirlýsingu um styrk er ákvæði um að óheimilt sé að nota styrkfé til annarra óviðkomandi verkefna.

Félagsmálaráðherra óskaði þess 16. nóvember sl. að Ríkisendurskoðun gerði athugun á fjárreiðum Byrgisins. Því liggur greinargerð Ríkisendurskoðunar nú fyrir og á grundvelli hennar hafa lögregluyfirvöld fengið fjárhagsleg málefni Byrgisins til meðferðar. Þrátt fyrir það hefur félagsmálaráðherra ekki dregið fjöður yfir að eftirlit hefði mátt vera í betra horfi. Einnig hefur ríkisendurskoðandi tekið undir það að efla megi eftirlit stofnunarinnar með fjármunum sem renna til aðila utan hins opinbera kerfis. Er því mikilvægt að leggja áherslu á að lærdómur verði dreginn af þessu máli og unnið markvisst að því að efla innra og ytra eftirlit með fjárveitingum úr ríkissjóði. Hefur sú vinna þegar farið af stað í félagsmálaráðuneytinu í samvinnu við Ríkisendurskoðun. Auk þess vinnur fjármálaráðuneytið nú ásamt félagsmálaráðuneytinu að gerð almennra reglna um ráðstöfun á styrkjum, skilgreindum kröfum fyrir útgreiðslu og kröfum um skil á gögnum um framkvæmd verkefnis. Verður einnig haft náið samráð við Ríkisendurskoðun um frágang þessara reglna.

Áhersla hefur verið lögð á það af hálfu félagsmálaráðuneytisins að finna lausnir fyrir þá einstaklinga sem voru í Byrginu þegar ákveðið var að loka því. Að þessu er unnið um þessar mundir, bæði hvað varðar skammtímalausnir (Forseti hringir.) og framtíðarlausnir.