133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum enn á fullri ferð í umræðu um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, í 3. umr. í þriðja sinn. Mig langaði í upphafi ræðu minnar aðeins að fara yfir það hver stefna Frjálslynda flokksins hefur verið í málefnum Ríkisútvarpsins.

Frjálslyndi flokkurinn hefur ávallt sýnt Ríkisútvarpinu mikinn áhuga og viljað standa vörð um það vegna þess að við teljum að Ríkisútvarpið sé mjög mikilvægt fyrir íslenska þjóð, að það sinni mikilvægu hlutverki. Ég hef farið yfir þetta í fyrri ræðum mínum um málið. Ég verð að segja eins og er að ég hef ekki tölu lengur á því hve oft ég hef farið upp í ræðustól til að tala um Ríkisútvarpið en það eru orðin allnokkur skipti á kjörtímabilinu. Enda á málið sér orðið töluvert langa sögu, eins og fram hefur komið í umræðum, þótt ég sé þeirrar skoðunar að þrátt fyrir allt þetta sé málið ekki orðið það gott að það sé tækt til afgreiðslu frá hinu háa Alþingi sem lög. Nóg um það.

Mig langaði fyrst til að minna á eina setningu í málefnahandbók Frjálslynda flokksins. Þetta er stefnuskrá okkar sem við höfum gefið út þar sem farið er yfir helstu mál okkar. Mál sem við höfum afgreitt á landsfundum og samþykkt og stefna sem við höfum meitlað. Þar stendur í kaflanum um menningu og trú undir liðnum Málstefna, ein setning, með leyfi forseta:

,,Frjálslyndi flokkurinn vill efla ríkisfjölmiðlana til styrktar móðurmáli og menningu, en bægja frá þeim drottnunargirni ríkisvalds á hverjum tíma.“

Þetta er ein setning en hún segir margt. Þessi litla setning er í raun á bak við þingmál sem við höfum flutt um Ríkisútvarpið. Við vorum byrjuð að tala um að breyta þyrfti ýmsu varðandi rekstur Ríkisútvarpsins löngu áður en ríkisstjórnarflokkarnir sem nú eru á hinu háa Alþingi fóru að minnast á að runnin væri upp sú stund að hér þyrfti eitthvað að gera.

Við lögðum fram tillögu til þingsályktunar um rekstur Ríkisútvarpsins á allnokkrum þingum. Þetta var fyrst flutt á 126. löggjafarþingi. Síðan var þetta endurflutt á 127. löggjafarþingi og 128. löggjafarþingi. Síðast fluttum við þingsályktunartillöguna á 130. löggjafarþingi 2003–2004. Þá sem fyrr voru allir þingmenn Frjálslynda flokksins með sem flutningsmenn en sá sem mælti fyrir þessu var hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

Þingsályktunartillagan endurspeglar þau sjónarmið sem við höfum viljað halda á lofti í Frjálslynda flokknum varðandi rekstur Ríkisútvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd, skipaða fulltrúum allra þingflokka, til að semja frumvarp um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Nefndin ljúki störfum innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.“

Með þingsályktunartillögunni fylgir greinargerð þar sem við segjum það hreint út að við teljum að Ríkisútvarpið sé viðurkennd stoð íslenskrar tungu og menningar. Rekstur stofnunarinnar sé ómissandi til að gefa almenningi kost á hvers konar fræðslu- og menningarefni sem aðrir ljósvakamiðlar vanrækja. Við teljum að miðillinn geti alls ekki verið öðruvísi en í þjóðareign og það verði að fjármagna þetta af almenningi og þá úr ríkissjóði. Við teljum að sérstaða Ríkisútvarpsins sé svo mikil að markaðshlutirnir geti ekki átt við starfsemi af þessu tagi. Hér er verið að tala um menningar- og fræðsluviðleitni þar sem sóknin eftir arðsemi verði að víkja fyrir mikilvægari markmiðum. Við höfum farið yfir þetta allt saman áður í umræðum á hinu háa Alþingi. Hið mikilvæga markmið er náttúrlega menningarhlutverk Ríkisútvarpsins sem ég tel að sé afskaplega mikilvægt. Ég er sannfærður um að Ríkisútvarpið gegnir mjög veigamiklu hlutverki og á að gegna mjög veigamiklu hlutverki sem menningarstofnun, stofnun sem varðveitir og heldur utan um íslenska menningararfleifð. Stofnunin eigi að vera eins konar viti fyrir til að mynda ræktun íslenskrar tungu og íslenskrar þjóðmenningar.

Það er enginn í vafa um það sem skoðar sögu Ríkisútvarpsins, og ég tók með mér í ræðustól afskaplega merkilega og góða bók eftir Gunnar Stefánsson, mjög góðan útvarpsmann okkar Íslendinga, sem heitir: Útvarp Reykjavík. Saga Ríkisútvarpsins 1930–1960. Þó hún nái einungis til ársins 1960 dylst engum sem les þá góðu bók, og ég hvet alla sem hafa áhuga á Ríkisútvarpinu að kynna sér hana hafi þeir ekki þegar gert það, þá dylst engum hversu gríðarlega miklu hlutverki stofnunin hefur gegnt meðal þjóðarinnar í gegnum áratugina á hinni löngu sögu sem spannar allt frá árinu 1930. Þá dylst engum hversu miklu hlutverki þessi stofnun hefur gegnt í 77 ár, sérstaklega hvað varðar menningarhlutverkið og það hlutverk að bjarga til að mynda ýmsu varðandi sögu og menningu þjóðarinnar frá glötun. Ég þori varla að hugsa þá hugsun til enda hvernig við værum stödd í dag ef Ríkisútvarpið hefði ekki verið til staðar til að skrá söguna. Allur sá fjársjóður sem Ríkisútvarpið býr yfir í dag, margt af því hefur því miður kannski farið forgörðum, en af því mikla efni sem þó er til er það að sjálfsögðu algerlega ómetanlegt.

Við í Frjálslynda flokknum lögðum það til á sínum tíma og stöndum fast við þá stefnu og þá skoðun okkar að skipa ætti nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka. Það var náttúrlega ekki gert. Ríkisstjórnin gerði það ekki, því miður. Ég hef harmað það áður að það skuli ekki hafa verið gert. Við töldum að nefndin ætti að semja frumvarp til laga um stofnunina og það ætti að meitla það fast að Ríkisútvarpið ætti að halda áfram að vera til sem sjálfstæð og óháð stofnun í eign íslensku þjóðarinnar, í þjóðareign. Algerlega yrði horfið frá hugmyndum sem hafa stundum verið í umræðunni um að selja eigi Rás 2 frá Ríkisútvarpinu, því við teljum að mikil þörf sé á því að við séum með gott landshlutaútvarp og annað efni sem kannski mundi þykja æskilegt að aðgreina frá dagskrá Rásar 1.

Ég tel að Rás 2 hafi mjög þýðingarmikið hlutverk ekki bara sem landshlutaútvarp heldur hafi Rás 2 líka á margan hátt mikið menningargildi. Rás 2 hefur staðið sig á margan hátt afskaplega vel oft í þjóðmálaumræðunni en sérstaklega vel hvað varðar nýsköpun í íslenskri tónlist, sérstaklega þeirri tónlist þar sem markhópurinn er kannski yngri hlustendur. Við megum ekki gera lítið úr þessu. Þetta skiptir mjög miklu máli. Hjá Rás 2 hafa í gegnum tíðina oft starfað afbragðsgóðir þáttagerðarmenn sem hafa sinnt þessu hlutverki rækilega. Ég hef ekki heyrt að einkareknu útvarpsstöðvarnar hafi sýnt því áhuga að spila tónlist með ungum og efnilegum hljómsveitum eða útvarpa tónleikum hljómsveita sem hafa verið að spila. Ég hef ekki orðið var við mikinn áhuga á því hjá einkareknu stöðvunum en þar hefur Rás 2 staðið sig gríðarlega vel. Ég er sannfærður um að það starf sem hefur verið unnið hjá Rás 2 hvað þetta varðar hefur skilað sér aftur til þjóðarbúsins og það margfalt. Rás 2 hefur í gegnum tíðina verið ómetanleg hjálp fyrir ýmsa efnilega listamenn, tónlistarmenn sérstaklega, og það hefur svo sannarlega borgað sig.

Við höfum líka bent á almannahagsmuni varðandi Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið er með það mikið dreifingarnet og þá kannski ekki síst langbylgjuna sem oft vill gleymast en er mjög mikilvæg, að það sinnir mjög miklu hlutverki varðandi almannahagsmuni og í tengslum við öryggismál. Fólk skiptir eiginlega ósjálfrátt yfir á Ríkisútvarpið ef eitthvað gerist til að fá fyrstu fréttir.

Við höfum talið að Ríkisútvarpið ætti að vera fjármagnað að fullu á fjárlögum hvert ár, til að mynda innan rammaáætlunar eða þjónustusamnings til nokkurra ára í senn. Við höfum sagt að Ríkisútvarpið ætti að hætta að flytja viðskiptaauglýsingar í samkeppni við aðra fjölmiðla en það ætti að flytja áfram tilkynningar frá opinberum aðilum, félagasamtökum og öðrum sambærilegum aðilum.

Við höfum sagt að Ríkisútvarpið ætti að vera virkur fræðslumiðill og þannig bregðast við vaxandi þörf fyrir símenntun og almenningsfræðslu og verða lind og farvegur fyrir vakandi og frjóa samfélagsumræðu. Þar hefur Ríkisútvarpið að sjálfsögðu gegnt mjög veigamiklu hlutverki í gegnum áratugina bæði hvað varðar fræðslu og sem vettvangur fyrir þjóðfélagsumræðu sem er náttúrlega öllum lýðræðisþjóðfélögum nauðsynleg á hverjum tíma.

Við höfum líka vakið athygli á því að Ríkisútvarpið eigi að gæta fjölbreytni í dagskrárgerð þannig að það mæti þörfum sem flestra landsmanna til að mynda með því að mismunandi rásir þjóni mismunandi hópum. Við höfum líka sagt að dagskrárstefnan eigi að vera laus undan öllum markaðsáhrifum. Þetta er kannski svolítið erfitt en mér finnst samt sem áður að á undanförnum missirum hafi Ríkisútvarpið því miður þurft að búa við stöðugt meiri áhrif frá markaðsöflunum til að mynda varðandi kostun. Þetta hefur náttúrlega á vissan hátt orsakast af því að Ríkisútvarpið hefur búið við mjög bágan fjárhag undanfarin ár. Ég tel að það sé að verulegum hluta á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna sem mér finnst að hafi látið rekstur þessarar merku stofnunar drabbast niður jafnt og þétt á mörgum undanförnum árum. Ég hef rakið það áður í fyrri ræðum mínum hvernig sú þróun var og kem kannski betur inn á það síðar.

Við mundum leitast við að búa til sjálfstætt þjóðarútvarp sem mundi leysa af hólmi þá stofnun sem hefur verið fram til þessa, reyna að draga eftir fremsta megni úr flokkspólitískum áhrifum og tengslum sem hafa verið ríkjandi. Ég held að það dyljist engum, hvorki starfsmönnum Ríkisútvarpsins, velunnurum Ríkisútvarpsins né þeim sem eru á hinum pólitíska vettvangi, að pólitísk tengsl í útvarpinu hafa oft og tíðum verið býsna sterk.

Útvarpsráð hefur verið starfandi mjög lengi. Það hefur verið umdeilt oft og tíðum og ákvarðanir þess valdið deilum. Við í Frjálslynda flokknum vildum að sett yrði á stofn allfjölmennt útvarpsráð. Mjög yrði fjölgað í útvarpsráði og þetta yrði nokkurs konar akademía, þ.e. fjölmennari hópur fólks kæmi að starfinu. Við nefndum töluna 15 manns. Þeir einstaklingar væru valdir af samtökum og stofnunum í samfélaginu. Það væri fólk úr menningargeiranum og listaheiminum, fólk frá fræðslustofnunum, úr vísinda- og rannsóknargeiranum og fólk náttúrlega af landsbyggðinni því Ríkisútvarpið hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki á landsbyggðinni, það er enginn vafi á því. Við vitum það sem höfum verið úti á landi að það skiptir miklu máli þar. Við hefðum viljað sjá fólk í ráðinu til að mynda frá almannasamtökum launþega og ef til vill fleiri aðilum.

Framtíðarsýn okkar væri sú að það að sitja í útvarpsráði væri mikil viðurkenning og virðingarstaða. Skapast mundi sátt um það í þjóðfélaginu að þarna veldust eingöngu inn aðilar sem væru mjög hæfir og hefðu góða og víða sýn yfir samfélagið. Útvarpsráð ætti að hafa vel skilgreint verksvið og ákveða megindrætti í dagskrárstefnunni og verkaskiptingu milli hugsanlega útvarpsrása sjónvarpsins og jafnvel internetsins sem er náttúrlega nýr miðill sem hefur komið inn mjög sterkt á allra síðustu árum og Ríkisútvarpið hefur sinnt af miklum sóma að mörgu leyti.

Ráðning útvarpsstjóra, þ.e. framkvæmdastjóra yfir stofnuninni eða fyrirtækinu, væri þá í höndum hins fjölmenna útvarpsráðs. Stofnunin, þ.e. fulltrúar starfsfólks og útvarpsráðs, mundi velja sameiginlega útvarpsstjóra. Útvarpsstjóri hefði umboð til að skipuleggja stofnunina og umboð til mannaráðninga og hefði annað forræði á rekstri og bæri fulla ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar. Þar værum við komin mjög langt í því að reyna að höggva á hin pólitísku tengsl, tel ég vera. Völdin lægju svo í höndum útvarpsráðs, þ.e. útvarpsráðið gæti ef út í það færi sett útvarpsstjóra af ef það teldi að sá aðili færi ekki eftir þeim tilmælum sem kæmu frá útvarpsráði um stefnumótunina varðandi meginþætti í dagskrá og annað þar fram eftir götunum.

Þetta voru hugmyndir okkar í Frjálslynda flokknum í frekar stuttu máli í þingsályktunartillögunni sem við lögðum fram á einum fjórum löggjafarþingum, nú síðast á 130. löggjafarþingi 2003–2004. Við höfum ekki mælt fyrir þingsályktunartillögunni síðan. Ástæðan er náttúrlega sú að eftir 130. löggjafarþing varð ljóst að ríkisstjórnin væri að koma með frumvarp um Ríkisútvarpið, ný lög um Ríkisútvarpið. Þetta hafði svo sem verið mjög lengi í deiglunni. Það sést þegar maður skoðar söguna.

Ég hampaði áðan bókinni Útvarp Reykjavík – Saga Ríkisútvarpsins 1930–1960 eftir Gunnar Stefánsson. Til að vekja athygli á því hversu lengi umræðan hefur verið í deiglunni langar mig til að vitna í örlítinn kafla úr bókinni. Hún kom út fyrir einum 10 árum og í eftirmála bókarinnar skrifar höfundurinn, Gunnar Stefánsson, nokkur orð. Mig langar til að lesa það sem hann segir í lokin, með leyfi forseta:

,,Svo vill til að um þær mundir sem þetta rit fer í prentun eru málefni Ríkisútvarpsins í nokkurri óvissu. Hugmyndir eru uppi um breytingar á rekstri þess og skipulagi. Standa þær að nokkru í sambandi við að pólitísk vindátt hefur snúist gegn ríkisrekstri á ýmsum sviðum. Þeirrar áttar tók að gæta hér upp úr 1980. Aðilar sem áður sögðu: ,,Ég vil ekki“ — segja: ,,Nú get ég“.“

Síðan segir Gunnar Stefánsson áfram:

,,Þannig lýsti Andrés Björnsson útvarpsstjóri þessari hugsun í síðasta áramótaávarpi sínu 1984, um sömu mundir og hin gagngera breyting var að verða á stöðu Ríkisútvarpsins. En þeir sem vildu fá að spreyta sig á útvarps- og sjónvarprekstri hafa sem vænta má reynst ófúsir til að taka á sig þær víðtæku félags- og menningarlegu skyldur sem Ríkisútvarpið gegnir. Samt verða kröfur um það æ háværari að minnka umsvif ríkisfjölmiðla og jafna samkeppnisstöðu þeirra og einkarekinna miðla. En þetta er vissulega margþættara mál og afdrifaríkara en ýmsir virðast hyggja.

Engu skal hér um það spáð hvernig rekstri Ríkisútvarpsins kann að verða hagað í framtíðinni. En ég hef þá trú að stofnunin muni halda velli og enn á nýrri öld gegna hlutverki sem einkareknir ljósvakamiðlar séu ólíklegir til að vilja sinna eða geta sinnt með viðhlítandi hætti. Útvarp og sjónvarp ríkisins er umfram allt víðtæk þjónusta við almenning, til fróðleiks, skemmtunar og menningarauka. Þessi þjónusta er rekin með sameiginlegu átaki þjóðarinnar og fyrir þjóðina alla, án tillits til búsetu, aldurs, efnahags eða annarra þátta sem gera fólk að misvænlegum neytendum á markaðstorgi. Slíkur fjölmiðill mun hér eftir sem hingað til skipa stórt rúm í menningarlífi Íslendinga.

Reykjavík, á þorranum 1997. Gunnar Stefánsson.“

Virðulegi forseti. Þetta voru lokaorð höfundar bókarinnar um Sögu Ríkisútvarpsins frá 1930–1980.

Þessi orð voru skrifuð fyrir um það bil tíu árum, á þorranum árið 1997. Nú erum við stödd á þorranum árið 2007. Liðin eru tíu ár. Að sjálfsögðu hefur margt breyst í þjóðfélaginu á þeim tíma. Ýmsar forsendur hafa breyst og ýmsar aðstæður hafa breyst á þessum tíu árum, þeim áratug sem liðinn er. En ég hygg þó að þau orð sem Gunnar Stefánsson ritar í eftirmála sínum af umræddri bók eigi fyllilega við í dag, alveg eins og þau áttu við árið 1997. Til að mynda þar sem hann segir: „En þeir sem vildu fá að spreyta sig á útvarps- og sjónvarpsrekstri hafa sem vænta má reynst ófúsir til að taka á sig þær víðtæku félags- og menningarlegu skyldur sem Ríkisútvarpið gegnir.“

Ég hygg að mikið sé til í þessu og ég er sammála því. Einnig því að:

„Útvarp og sjónvarp ríkisins er umfram allt víðtæk þjónusta við almenning, til fróðleiks, skemmtunar og menningarauka. Þessi þjónusta er rekin með sameiginlegu átaki þjóðarinnar og fyrir þjóðina alla, án tillits til búsetu, aldurs, efnahags eða annarra þátta sem gera fólk að misvænlegum neytendum á markaðstorgi.“

Þetta er í rauninni efnislega mjög svipað og við höfum verið að segja í Frjálslynda flokknum í fjölmörg ár. Við erum sammála þeim orðum sem Gunnar Stefánsson ritaði fyrir tíu árum.

Mér finnst meitlast í þessu enn og aftur sú harða afstaða okkar að við viljum standa vörð um Ríkisútvarpið sem þjóðarmiðil. Það viljum við gera í Frjálslynda flokknum og stöndum fast á því.

Ég hef setið í menntamálanefnd þegar þessi mál hafa verið þar til umræðu og fylgst með hvernig þessu hefur undið fram. Ég hef líka, virðulegi forseti, setið í annarri nefnd sem var skipuð eftir að orrahríðin mikla hafði staðið yfir um hið svokallaða fjölmiðlafrumvarp veturinn 2003–2004. Það var mikill slagur eins og við kannski öll munum. En það sem gerðist að lokum var að til að reyna að finna einhvern sáttaflöt var skipuð nefnd til að gera tillögur um hvernig framtíðarskipan íslenskra fjölmiðla ætti að vera. Ég var fulltrúi Frjálslynda flokksins í þeirri nefnd.

Strax þegar nefndin hóf störf lögðum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar áherslu á að málefni Ríkisútvarpsins yrðu tekin með. Við skrifuðum bréf til hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem var dagsett 25. október 2004, um leið og nefndin hóf störf. Þar sögðum við, með leyfi forseta, þ.e. Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn:

„Það virðist skilningur allra málsaðila í lok hinna erfiðu deilna sem stóðu um fjölmiðlalög ríkisstjórnarinnar í vor og sumar að ný fjölmiðlanefnd yrði að koma að hreinu borði og taka sér þann tíma sem hún teldi sig þurfa til að komast að niðurstöðu um æskilegt lagaumhverfi fjölmiðlanna.“

Síðan kemur:

„Sömuleiðis lögðu allir stjórnarandstöðuflokkarnir mikla áherslu á að málefni Ríkisútvarpsins yrðu að vera hluti af starfi nefndarinnar. Á þeim grundvelli lýstu forustumenn flokkanna þriggja því yfir í lok umræðunnar í sumar að flokkar þeirra teldu eðlilegt að koma að vinnu nýrrar fjölmiðlanefndar.

Sú yfirlýsing stendur en vegna þeirrar skilgreiningar á verkefni nefndarinnar sem fram kemur í bréfi ráðuneytisins frá 14. október síðastliðinn teljum við ástæðu til að taka það fram að fulltrúar okkar taka sæti í nefndinni með óbundnar hendur og munu ekki einskorða starf sitt við þá skilgreiningu. Framlag þeirra á vettvangi nefndarinnar mun taka til allra fjölmiðla og er Ríkisútvarpið þar ekki undanskilið. Þótt fulltrúar flokkanna séu vissulega reiðubúnir til að hraða vinnu nefndarinnar eftir föngum áskilja þeir engu að síður sér rétt til að meta hvort sá tími dugir sem nefndinni virðist ætlaður samkvæmt bréfi ráðuneytisins.“

Þetta var undirritað af þingflokksformönnum allra stjórnarandstöðuflokka í Reykjavík þann 25. október 2004. Allt gott um það að segja.

Menntamálaráðherra fékk bréfið í hendur og las það. Hæstv. ráðherra var því alveg ljóst hver okkar hugsun væri þegar við fórum inn í þessa vinnu í fjölmiðlanefndinni. Síðan vinnum við okkar störf og erum að því allan veturinn og ljúkum störfum þann 7. apríl árið 2005.

Þegar við hófum störf í fjölmiðlanefndinni höfðum við í ekki hugmynd um að ríkisstjórnin væri að undirbúa löggjöf varðandi Ríkisútvarpið. Það kom á daginn. Á þeim vetri fór að kvisast út að þess væri að vænta að frumvarp um Ríkisútvarpið kæmi frá ríkisstjórninni. Við sem settumst í fjölmiðlanefnd og töldum að við værum að skoða heildstætt umhverfi fjölmiðla á Íslandi — að sjálfsögðu Ríkisútvarpið þar innifalið, og fórum í þá vinnu sem endaði með ágætri samantekt eða skýrslu sem í raun er heil bók upp á 270 blaðsíður og vel það — höfðum ekki hugmynd um hvað ríkisstjórnarflokkarnir voru í rauninni að bralla á bak við tjöldin.

En loksins rann upp sá dagur að vinnu okkar lauk. Þann 7. apríl 2005 lauk nefndin störfum. Þá gerðum við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í fjölmiðlanefndinni, við vorum þrír fulltrúar, ákveðna bókun. Hún hljómaði svona, því ég vil að þetta sé alveg á hreinu og komist í þingtíðindi, með leyfi forseta:

„Bókun. Alveg frá því að starf nefndarinnar hófst höfum við gert athugasemdir við þá ákvörðun menntamálaráðherra að takmarka svigrúm hennar til að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins, samanber bréf frá formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar sem sent var menntamálaráðherra þegar tilnefnt var í nefndina.

Við erum þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem taki bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Slíkt er einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið fer fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf.“ — Ég endurtek til að leggja áherslu á þetta: „Slíkt er einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið fer fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf.

Sjálfstætt almannaútvarp stuðlar að pólitískri og menningarlegri fjölbreytni og er forsenda þess að fjölmiðlar geti sinnt aðhaldshlutverki og verið útverðir lýðræðis í samfélaginu. Það er mat okkar að eigi að nást víðtæk sátt í samfélaginu um almenna rammalöggjöf um fjölmiðla, eignarhald og starfsumhverfi, verði að tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og varðveita það traust sem ríkir milli stofnunarinnar og eigenda hennar, þ.e. þjóðarinnar.

Nú hefur það gerst að fram er komið stjórnarfrumvarp um Ríkisútvarpið um það leyti sem fjölmiðlanefndin er að ljúka störfum án þess að nefndinni hafi nokkurn tíma verið gerð grein fyrir því hvers mætti vænta í slíku frumvarpi. Frumvarpið vekur upp margar spurningar um raunveruleg markmið ríkisstjórnarinnar og teflir framtíð stofnunarinnar í tvísýnu þar sem nema á núverandi heildarlög um Ríkisútvarpið úr gildi og færa stofnunina inn í nýtt rekstrarumhverfi.

Enn er ekki vitað hvaða vinnulag ríkisstjórnin og sá þingmeirihluti sem hún styðst við hyggst hafa við meðferð frumvarpsins. Með þessari skýru og afdráttarlaus bókun sem lýtur að því að ásættanleg niðurstaða náist um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins, skrifum við undir þessa skýrslu.

Reykjavík, 7. apríl 2005. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Magnús Þór Hafsteinsson.“

Þarna lá fyrir mjög afdráttarlaus bókun frá hendi stjórnarandstöðunnar og um leið einlæg ósk um að farið yrði samhliða í þá vinnu að marka löggjöf fyrir Ríkisútvarpið um leið og við færum í þá vinnu að marka löggjöf fyrir almennt starfsumhverfi fjölmiðla.

Að sjálfsögðu hefði skynsamlegasta leiðin í þessu öllu saman verið sú, og þá hefðum við örugglega sloppið hér við mikið tal, langar ræður, endalaus fundarhöld í menntamálanefnd þar sem mikill tími hefur farið í þetta mál, ef skipuð hefði verið nefnd með fulltrúum allra þingflokka, eins og við lögðum til í Frjálslynda flokknum, til að móta nýja löggjöf fyrir Ríkisútvarpið. Alveg eins og gert var varðandi fjölmiðlamálið.

Hvar er deilan um fjölmiðlalögin í dag? Hugsanleg fjölmiðlalög eða fjölmiðlafrumvarp? Hvar er hún? Hún er alveg horfin. Ég á ekki von á að taka þurfi langan tíma að afgreiða það frumvarp, um nýtt starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi, sem nú hefur verið dreift í þinginu og sent til menntamálanefndar og nefndin sent það út til umsagna, að því er ég best man.

Hvers vegna skyldi þetta vera? Jú, vegna þess að einmitt eftir að ríkisstjórnin hafði siglt í strand með fjölmiðlafrumvarpið var sú skynsamlega leið farin að kalla til fulltrúa allra þingflokka og reyna að vinna málið í sátt og sameiningu í nefnd. Þannig hefðum við líka átt að gera með Ríkisútvarpið. Þá hefðum við sparað okkur mikinn tíma á hinu háa Alþingi og andrúmsloftið á hinu háa Alþingi væri ekki jafnspennuþrungið og eitrað og það hefur verið undanfarna daga þegar loksins á að gera lokatilraun til að frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið verði að lögum.

Það hefði verið miklu skynsamlegri lending að hefja þá vinnu strax í upphafi kjörtímabilsins. Ég hygg að ef þetta hefði verið gert væri nú þegar búið að samþykkja fyrir allnokkru nýja lagaumgjörð fyrir Ríkisútvarpið eða væri að minnsta kosti komið jafnlangt og fjölmiðlalögin.

Ég hefði í raun viljað, og hef sagt það áður, að bæði þessi frumvörp yrðu afgreidd samhliða í gegnum þingið, og rædd samhliða í menntamálanefnd. En ríkisstjórnin hefur af einhverjum orsökum, sem ég skil ekki og hef ekki fengið neinar skýringar á, ákveðið að afgreiða fyrst frumvarpið um Ríkisútvarpið, frumvarp sem virðist vera samið á forsendum Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarflokkurinn er hafður með í eftirdragi, meira og minna meðvitundarlaus. En ríkisstjórnin virðist hafa valið að fara þessa leið og berja þetta í gegnum þingið.

Minna þau vinnubrögð okkur ekki á eitthvað, virðulegi forseti? Minna þau ekki á eitthvað? Hringja ekki einhverjar bjöllur þegar þetta er skoðað? Jú, þessi vinnubrögð minna einmitt á vinnubrögðin sem við stóðum frammi fyrir þegar fjölmiðlalögin komu inn í þingið fyrir rétt tæpum fjórum árum og allt fór á hvolf í þjóðfélaginu.

Þá var það líka Sjálfstæðisflokkurinn sem dró vagninn og vildi fá þá löggjöf í gegn og Framsóknarflokkurinn fylgdi með sem nánast viljalaust verkfæri og varð að sjálfsögðu fyrir miklum ágjöfum. Báðir flokkarnir urðu fyrir miklum ágjöfum. Hvernig lyktaði því máli? Jú, það lyktaði með því að forseti lýðveldisins, herra Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði að skrifa undir lögin þegar þau komu inn á hans borð eftir að þau höfðu verið samþykkt af meiri hluta Alþingis. Hann vísaði því máli til þjóðarinnar. En hvað gerðist þá? Ríkisstjórnarmeirihlutinn þorði ekki að fara með málið í dóm þjóðarinnar. Þeim til ævarandi skammar og hneisu. Ríkisstjórnarmeirihlutinn heyktist á því að fara með það mál til þjóðarinnar, eins og hann átti að gera samkvæmt stjórnarskrá, heldur nam lögin úr gildi.

Enn og aftur kemur í ljós að ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekki fara með umdeilt frumvarp í dóm þjóðarinnar. Núna erum við að tala um Ríkisútvarpið. Eftir allt sem á undan er gengið kemur á daginn að ríkisstjórnarflokkarnir kæra sig ekki um að lýðræðisleg niðurstaða náist um þetta mál.

Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram það tilboð að gildistöku þessara laga, sem væntanlega verða samþykkt seint og um síðir, verði frestað fram yfir kjördag þann 12. maí næstkomandi. Það eru bara örfáar vikur í næstu alþingiskosningar. Við höfum lagt fram það tilboð. Þannig gæfist kjósendum, almenningi í þessu landi, kostur á að taka þetta mál með inn í ákvarðanatöku sína varðandi það hvað fólk hyggst kjósa í næstu alþingiskosningum. Þetta yrði eitt af þeim málum sem kjósendur gætu sjálfir vegið og metið þegar þeir gerðu upp hug sinn til hinna ýmsu stjórnmálaflokka. Við mundum leggja þetta mál í hendur þjóðarinnar. Stjórnarandstöðuflokkarnir vilja ekki fara leiðina sem liggur fyrir í þessu frumvarpi. Þeir hafa ekki mikla trú á að þetta frumvarp standist nánari skoðun eins og komið hefur fram í löngum ræðum.

Ég hefði frekar viljað að fundin yrði önnur leið, t.d. í anda tillagna sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram fyrir löngu síðan og ég fór yfir hér áðan. Ég hygg að þær hugmyndir sem við höfum sett fram yrðu kannski ekki allar samþykktar. Þegar margir flokkar koma saman að lausn máls þarf að leita málamiðlana. Þá þurfa stjórnmálamenn að sýna samningslipurð. Ég hygg að hvernig sem það færi yrði útkoman betri en það sem liggur fyrir hér og nú. Ríkisstjórnin virðist vera harðákveðin í að þetta skuli verða að lögum og þau lög skuli taka gildi sex vikum áður en þjóðin gengur til næstu alþingiskosninga. Ábyrgðin hlýtur því einvörðungu að falla á herðar ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir afstöðu Frjálslynda flokksins í þessu máli eins og hún liggur fyrir, bæði í málefnahandbók flokksins og í þingsályktunartillögu sem við höfum fjórum sinnum lagt fram á hinu háa Alþingi.

Ég hef bent á þá afstöðu sem lá fyrir, niðurstöðuna af vinnu okkar í fjölmiðlanefndinni svokölluðu varðandi málefni Ríkisútvarpsins. Ég lýsti með hvaða hætti við fórum í þessi störf og þá miklu vinnu sem unnin var í nefnd menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla.

Eftir þrjár tilraunir liggur fyrir frumvarp til laga. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að pappírinn í málinu sé alltaf eitthvað að þynnast en það má vel vera misskilningur. Mér virðist a.m.k. málið farið að þynnast. Því mér finnst þetta frumvarp vekja upp svo margar spurningar. Auðvitað hlýtur það að gerast. Ef það er rétt sem stjórnarliðar halda fram, að búið sé að tala í þessu máli samtals í 120 klukkustundir og vel það þá hlýtur náttúrlega að segja sig sjálft að eitthvað hlýtur að vera að þessu máli. Þingmenn hefðu aldrei getað talað svo lengi um málið nema vegna þess að þeir hafa eitthvað við það að athuga. (Gripið fram í: Nú?) Það er nú bara svoleiðis.

Bara þetta hlýtur að vekja alvarlegar spurningar í hugum landsmanna um hvort frumvarpið sé það vandað og vel undirbúið að það eigi hreinlega að fara í gegnum þingið.

Við 1. umr. í þessari tilraun til að gera þetta frumvarp að lögum, sem fór fram 16. október árið 2006, flutti ég ræðu og fór m.a. yfir það í stórum dráttum hvernig ríkisstjórnarflokkarnir tveir hefðu nánast markvisst, að ég tel með fullum vilja og vitund, látið fjara undan Ríkisútvarpinu fjárhagslega. Það er mjög alvarlegt mál. Stofnunin stóð mjög vel árið 1994, um það leyti sem þáverandi útvarpsstjóri Heimir Steinsson lét rita söguna um Útvarp Reykjavík, sögu Ríkisútvarpsins 1930–1980, sem ég las upp úr áðan. Um það leyti var staða þessarar stofnunar sterk. Eigið fé var talið, hvorki meira né minna en, 2,7 milljarðar kr.

Eftir þetta, um svipað leyti og núverandi ríkisstjórnarflokkar koma til valda, fer að fjara undan Ríkisútvarpinu. Tekjumöguleikar þess eru skertir og menn þráast við að hækka afnotagjöldin, enda voru afnotagjöldin og eru kannski enn, umdeildur skattur. Þá voru lagðar lífeyrisskuldbindingar á Ríkisútvarpið af fullum þunga sem, ef ég man rétt, eru um 2,9 milljarðar í dag. Mig minnir að hæstv. menntamálaráðherra hafi sagt við 1. umr. að afborgunarálagið af þessum skuldbindingum væri um 200 millj. kr. á ári og yrði það inn í framtíðina.

Við höfum frá 1997 séð að sjónvarpið flutti og var endurnýjað. Það var reyndar gert mjög vel og með miklum glæsibrag. Þá voru miklar fjárfestingar, ef ég man rétt, um milljarður eða vel það. Það var ekki greitt með fjárlögum eða úr ríkissjóði heldur með því að skuldsetja Ríkisútvarpið. Áfram hefur þetta haldið og sífellt hallað undan fæti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í haust var rekstrarfé fyrirtækisins neikvætt og í raun mátti kannski segja að fyrirtækið væri svo illa statt að tæknilega séð væri það nánast gjaldþrota. Þetta er staðan þegar farið er í að breyta stofnuninni í hlutafélag.

Það að breyta stofnuninni í hlutafélag, þ.e. breyta um rekstrarform stofnunarinnar, er í sjálfu sér nokkuð sem ég hef sagt að megi alveg skoða. En vandamálið er að þegar maður fer að velta því fyrir sér þá kemur upp að rétt gæti verið að breyta þessu í sjálfseignarstofnun. Getur verið að rétt sé að breyta þessu í hlutafélag? Hvaða afleiðingar mun það hafa? Hvað þýðingu mun það hafa? Það er sjálfsagt að velta þessu fyrir sér og skoða það. Ég tel að andinn í þingsályktunartillögu okkar í Frjálslynda flokknum, sem við höfum lagt fram fjórum sinnum, um rekstur Ríkisútvarpsins, feli í sér að við séum reiðubúin til að skoða þetta með opnum huga.

Virðulegi forseti. Þegar maður sér hins vegar að stofnunin er svo illa stödd og að breyta á henni í hlutafélag, alfarið í eigu ríkisins og undir, hvað eigum við að segja, hæl valdhafa á hverjum tíma, þ.e. ráðandi stjórnmálaflokka, þá verður maður mjög áhyggjufullur og fyllist grunsemdum. Málið er þannig að sporin hræða í þessum efnum. Í lok ræðu minnar þann 16. október síðastliðinn sagði ég að afstaða okkar til þessa máls mundi ekki breytast, við værum á móti því að þessi stofnun yrði að hlutafélagi nema við sæjum að ríkisstjórnin væri reiðubúin til að leggja fram það fjármagn sem þarf til að rétta fyrirtækið af. Ég hef ekki sannfærst um að ríkisstjórnin sé reiðubúin til þess.

Ég benti líka á í ræðu minni 16. október að ég væri mjög hræddur um að það sem í raun vekti fyrir ríkisstjórnarflokkunum og þá kannski sérstaklega sterkum öflum í Sjálfstæðisflokknum — Framsóknarflokkurinn er eins og viljalaust lamb á leið til slátrunar í þessu máli eins og svo mörgum öðrum í ríkisstjórnarsamstarfinu — að setja í gang ferli til að selja Ríkisútvarpið. Ég veit að margir innan Sjálfstæðisflokksins vilja sannarlega verja Ríkisútvarpið og standa gegn því að það verði einkavætt en ég hygg að önnur öfl innan Sjálfstæðisflokksins séu að því að reyna að setja í gang ferli sem muni leiða til þess að Ríkisútvarpið verði hreinlega selt, verði einkavætt.

Við skulum aðeins líta á málið, virðulegi forseti, og gera okkur í hugarlund hvað gæti legið að baki. Það væri hægt að selja Ríkisútvarpið og fá fyrir það einhvern pening. Eitthvað af einkareknu fyrirtækjunum mundi þá komast yfir það. En skyldi ekki Ríkisútvarpið líka eiga verulegar undirliggjandi eignir? Það er þannig, virðulegi forseti, að ég hef starfað á Ríkisútvarpinu sem fréttamaður bæði í sjónvarpi og líka í útvarpi. Ég var um árabil fréttaritari ríkisútvarpsins í Noregi. Ég þekki nokkuð vel til innviða þessarar stofnunar og þykist vita að Ríkisútvarpið á mjög álitlega og góða lóð á einum besta stað í Reykjavík þar sem útsýni er ákaflega fallegt.

Gæti hugsast, ef Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag, að tekin yrði sú ákvörðun að selja jafnvel bæði húseign og lóð? Gæti hugsast að sá sem kæmist yfir Ríkisútvarpið færi í það ferli að búa til peninga úr eignum þess, t.d. þannig að hægt væri að reisa í staðinn íbúðahverfi eða annað þess háttar. Gæti það hugsast? Ég skal ekki fullyrða neitt um það en mér finnst sjálfsagt að varpa þessari hugmynd fram og vekja athygli á þessu. Ég hygg að það gæti verið mjög freistandi fyrir stjórnarmeirihluta framtíðarinnar að einkavæða Ríkisútvarpið. Við sáum hvernig Síminn var einkavæddur. Það stóð ekki til að selja Símann þegar honum var breytt í hlutafélag, eða hvað?

Var það sagt, hv. þm. Jón Bjarnason? Jón Bjarnason hristir höfuðið. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sömuleiðis. Þeir sátu á þingi þá og tóku þátt í umræðum um það mál báðir tveir. Þeir minnast þess ekki. Síðan eru liðin nokkur missiri og löngu búið að selja Símann. Ég óttast að Ríkisútvarpsins bíði í sömu örlög. Ég er hræddur um það og grundvallarástæðan fyrir því að ég er á móti þessu frumvarpi núna markast af því að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Ég treysti þeim ekki fyrir næsta húshorn í málinu.

Ég er logandi hræddur við að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag ef Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram um stjórnvölinn. Við vonum sannarlega að svo verði ekki og sannarlega ekki með Framsóknarflokkinn í eftirdragi til að selja Ríkisútvarpið á næsta kjörtímabili. Ég vil ekki koma nálægt því ferli. Ég vil ekki koma nálægt því að samþykkja eitthvað sem leitt gæti til þess að Ríkisútvarpið verði selt.

Ég fór yfir það í upphafi ræðu minnar, virðulegi forseti, að ég tel að Ríkisútvarpið gegni gríðarlega mikilvægu hlutverki. Ég og við í Frjálslynda flokknum erum alfarið á móti því að Ríkisútvarpið verði selt. Það gegnir einfaldlega of dýrmætu hlutverki. Þetta yrði svipað og að ætla að selja Þjóðleikhúsið, Landsbókasafnið, Árnastofnun eða aðrar þær stofnanir sem gegna mjög mikilvægu menningarhlutverki. Þetta væri álíka galið. En menn hafa stundum fengið brjálaðar hugmyndir. Ég gæti alveg trúað nokkrum þeirra sem nú eru í þingliði Sjálfstæðisflokksins, þó ekki öllum, til að vinna slíkt voðaverk að selja Ríkisútvarpið. Ég gæti alveg trúað að það vekti fyrir þeim. Enda hefur komið fram hjá sumum þeirra, í þingmálum og ræðum, að þeir hafa fullan vilja til þessa.

Það eru náttúrlega aðrir þættir í frumvarpinu sem gera að verkum að allir viðvörunarmælar loga á rauðu. Langar og miklar ræður hafa verið fluttar um það við 3. umr. Margir þingmenn hafa flutt ágætar ræður og bent á annmarkana við þetta frumvarp. Talað hefur verið um að réttindi starfsfólks séu í óvissu. Það hefur verið talað um þætti er varða regluverk Evrópusambandsins sem við þurfum að fella okkur undir þar sem við erum aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Farið hefur verið yfir fjármál stofnunarinnar, meinta hagræðingu og annað þess háttar.

Réttindi starfsmanna virðast vera óljós. Svo er það þetta með þennan blessaða nefskatt. Fram kom í umræðum í gær og í dag, að þó þetta sé kallaður nefskattur sem eigi að leggja á alla borgara landsins virðast vera til eitthvað í kringum 2.200 borgarar sem eru neflausir í þessari nefskattsskattlagningu. Þeir eru neflausir með þeim hætti að þeir eru undanþegnir því að þurfa að borga hinn svokallaða nefskatt. Þetta er fólk sem hefur það miklar fjármagnstekjur að það getur lifað af þeim eingöngu sem eru eitthvað um 2.200 einstaklingar. Það vill svo undarlega til að þeir Íslendingar sem lifa eingöngu á fjármagnstekjum og borga, að ég man best, aðeins 10% skatt af þeim eru þeir sem eru best stæðir í þjóðfélaginu. Með þessu verða þeir undanþegnir því að þurfa að greiða nefskatt til Ríkisútvarpsins, þ.e. þeir ríkustu munu sleppa.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst þetta alveg lýsandi dæmi um það hvernig núverandi ríkisstjórn hefur starfað á kjörtímabilinu. Þeir ríku sleppa alltaf undan. Hins vegar er haldið áfram að djöflast og berja á þeim sem eru fátækari og þeir eru skattpíndir út í eitt en hinir ríku sleppa. Þetta er alveg með ólíkindum en þannig virðist þetta vera.

Annað sem er í þessu er að það á víst að innheimta nefskatt af öllum lögaðilum. Ég minnist þess að við fengum á fund til okkar í nefndinni fulltrúa frá ríkisskattstjóra sem sagði okkur frá því að það eru eitthvað um 20 þús. kennitölur til í landinu sem eru nánast sofandi lögaðilar, ef svo má segja, fyrirtæki sem hafa verið í litlum eða engum rekstri en eru samt enn þá til á pappírnum, fyrirtæki sem eru kannski að einhverju leyti skuldug, með litlar eða kannski engar tekjur. Allar þær kennitölur verða rukkaðar um nefskatt. Þannig mun þetta halda áfram, rukkaður verður nefskattur af fólki inni á heimilum margfalt af því að þetta fer eftir fjölda persóna.

Stunduð hefur verið sagt að afnotagjaldið sé umdeilt og það hafi verið allt of miklar deilur um það, það sé svo mikil óánægja með það að við þurfum að finna upp einhvern annan tekjustofn í staðinn til að skapa tekjur fyrir Ríkisútvarpið. Ég spyr í ljósi þessa, bæði með tilliti til þess að þeir sem eingöngu lifa af fjármagnstekjum sleppi við að þurfa að borga nefskatt og með tilliti til þess að hinar sofandi kennitölur þurfa að borga nefskatt og annað þar fram eftir götunum í kringum skattlagninguna: Heldur fólk virkilega að það verði eitthvað minni deilur um nefskattinn en afnotagjaldið? Nei, að sjálfsögðu ekki. Þetta verður mjög óvinsæl skattlagning, það verður mikill ófriður í kringum hana.

Ég sé fyrir mér, virðulegi forseti, eins og hefur náttúrlega komið fram áður í umræðunum, að með hinu nýja frumvarpi um Ríkisútvarpið, verði það samþykkt, þá sé svo margt sem muni skapa mjög magnaðan ófrið í þjóðfélaginu. Við getum talað um málefni starfsmanna, um ESA-málin sem vel gætu leitt til málaferla, um nefskattinn, um Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði í samkeppni við aðra fjölmiðla og annað þar fram eftir götunum. Ég hygg að þetta muni vekja svo miklar og hatrammar deilur í þjóðfélaginu að það muni verða vatn á myllu þeirra sem vilja selja stofnunina, einkavæða hana. Þetta verður vandræðabarn í kerfinu og það munu koma fram sífellt háværari raddir um að réttast sé að ríkið losi sig við þetta vandræðabarn, komi því af höndum sér og þannig verði málin leyst. Nefskatturinn verður svo óvinsæll að sífellt fleiri borgarar landsins, kjósendur sem kannski eru fylgjandi Ríkisútvarpinu núna og vilja hafa það áfram muni snúast gegn því og fallast á það að líklega sé best að losa sig við þetta vandræðabarn í eitt skipti fyrir öll.

Ég hygg að þetta yrði menningarsögulegt stórslys ef af þessu yrði. Það er sannfæring mín og okkar í Frjálslynda flokknum að þetta megi alls ekki gerast en mig grunar það einhvern veginn þegar ég horfi um öxl og skoða hvernig ferlið hefur verið frá 1997, þegar stofnunin var í raun og veru í blóma, hvernig það hefur verið þessi tíu ár, frá því þá og þar til nú, hvernig fjarað hefur undan rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins, rekstrarskilyrðum þess og fjárhag, hvernig ferlið hefur verið við það að breyta stofnuninni nánast hvað sem það kostar, fyrst yfir í sf. og síðan yfir í hf. og nú yfir í ohf. Það er búið að rugla og þvæla með málið fram og til baka allt kjörtímabilið þannig að almenningur veit nánast ekki sitt rjúkandi ráð. Ef við skoðum allt ferlið og svo hvernig frumvarpið lítur út núna í þeirri mynd sem það er, öll þau spurningarmerki sem hægt er að setja við frumvarpið þegar það er skoðað, ef við hugsum um öll þau atriði sem félagar mínir í stjórnarandstöðunni hafa bent á í ágætum ræðum nánast linnulaust í þrjú ár, ef svo má segja, því að málið hefur alltaf komið í þingið aftur vegna þess að það hefur aldrei fengist afgreitt sem lög og við tölum um það nú í þriðja sinn. Ef við bendum á alla þessa þætti og á þá staðreynd að við höfum víða ekki fengið nein fullnægjandi svör frá ríkisstjórnarmeirihlutanum varðandi útfærslurnar hlýtur maður að vera mjög efins um að menn séu að gera rétta hluti. Ég á mjög erfitt með að sannfærast um að svo sé.

Því hlýt ég, virðulegi forseti, fyrir hönd þingflokks Frjálslynda flokksins að lýsa því yfir í þessari ræðu að við í þingflokki Frjálslynda flokksins leggjumst gegn því að málið verði afgreitt úr þinginu. Við teljum að allir stjórnmálaflokkar hefðu átt að fá að koma að vinnu málsins og það hefði átt að leiða það með skynsamlegum hætti til þess að ná fram sátt um þetta. Það ríkti sátt um Ríkisútvarpið og mér finnst mjög mikilvægt að það náist sátt um Ríkisútvarpið í framtíðinni. Náist ekki sátt um Ríkisútvarpið verður stofnunin eyðilögð, það er mín skoðun. Ef það næst ekki víðtæk pólitísk sátt um að Ríkisútvarpið eigi að vera í þjóðareign, að Ríkisútvarpið sinni ómetanlegu menningarlegu hlutverki og eigi að gera það í framtíðinni er ég nokkuð viss um að sterk öfl muni reyna að koma undir sig fótunum þannig að stofnunin verði áfram brotin niður, grafið verði undan henni, eins og við erum kannski þegar farin að sjá því að maður heyrir af því að starfsmenn Ríkisútvarpsins séu nánast farnir að vinna sem verktakar úti í bæ við verk sem falla undir Ríkisútvarpið, við þáttagerð og annað þess háttar.

Þarna finnst manni eins og farið sé í gang ferli til að reyna að halda áfram að grafa undan þessu, veikja stofnunina meira og meira. Svo kemur nýja löggjöfin sem stefnir í að verði samþykkt. Hún verður svo umdeild, skattlagningin verður svo umdeild og annað þar fram eftir götunum. Fjárhagurinn verður svo slæmur, það þarf að hagræða, það þarf að segja upp fólki, það þarf að gera ýmsar breytingar, breytingar á dagskrá og annað þar fram eftir götunum o.s.frv., o.s.frv. að á endanum verður sagt: Við nennum þessu ekki, við gefumst upp, þetta er tómt vesen, ríkið á ekki að vera að standa í þessu, seljum þetta, burt með þetta, losum okkur við þetta, hættum þessu. Það er best að einhverjir einkaaðilar sjái um þetta.

Um leið og það verður gert, um leið og þau sjónarmið ná yfirhöndinni, ef þeim sjónarmiðum verður leyft að ná yfirhöndinni, þá verður hér menningarsögulegt stórslys sem seint eða aldrei mun verða bætt fyrir íslenska þjóð.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.