133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

gjaldskrá Herjólfs.

[10:46]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna því að ráðherra hafi lýst hér yfir að hann muni leggja ríka áherslu á það við rekstraraðilann að hann gæti hófs í gjaldtöku. Við skulum vona að það gangi eftir. Við getum líka sagt sem svo að það verður þá fylgst með að það verði gert.

Ég hefði líka viljað fá að heyra nánar frá ráðherrum þessarar ríkisstjórnar hvað þeir hyggist gera varðandi Vestmannaeyjar, hvort ekki sé nú kominn tími til að fara vel yfir stöðu Vestmannaeyja og samfélagsins þar. Tölur varðandi mannfjöldaþróun og annað eru að mörgu leyti frekar ískyggilegar, mundi ég segja. Fólki fækkar, meðalaldur hækkar og það dregur úr barnsfæðingum.

Þetta eru sömu einkenni og við sjáum víða annars staðar á landsbyggðinni. Vestmannaeyjar eru mjög sérstakar og búa við sérstakar landfræðilegar aðstæður eins og ég hef hamrað hér á. Mér finnst að stjórnmálamenn gleymi því oft, því miður, þeir gleyma því oft, stjórnmálamenn sem sitja hér í 101 Reykjavík, við hvaða aðstæður þessi byggðarlög búa. Er ekki von á því að til greina komi að íhuga hvort ekki sé tími kominn til að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir varðandi þessa hluti?