133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

svar við fyrirspurn um fjárhagsstöðu RÚV.

[13:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það hlýtur að teljast alvarlegt þegar mál af því tagi sem hér um ræðir, sem ríkir um gríðarlega mikill pólitískur ágreiningur er afgreiddur héðan frá Alþingi á þeim nótum sem þegar er augljóst. Upplýsingar þær sem hér koma fram eru ekki sömu upplýsingar og koma fram í skýrslu matsnefndarinnar sem gerði stofnefnahagsreikninginn fyrir Ríkisútvarpið ohf. fyrir hæstv. ráðherra heldur er hér um nýjar upplýsingar að ræða. Mann rekur auðvitað í rogastans þegar hæstv. menntamálaráðherra leyfir sér að segja að við, nefndarmenn í menntamálanefnd Alþingis, eigum að vita betur og við eigum að sætta okkur við það sem hún ákveður að skammta okkur úr hnefa. Það er bara ekki svo, hæstv. forseti. Við þingmenn á Alþingi Íslendinga höfum sjálfstæðan rétt til að afla upplýsinga í gegnum ráðuneytin. Það er okkar sjálfsagði réttur og það er ömurlegt þegar ráðherrar að því er virðist leyfa sér að halda upplýsingum leyndum frá þingmönnum eða móast við að leggja fram þær upplýsingar sem sjálfsagt er að við eigum samkvæmt lögum rétt til.

Ég vil í lokin, hæstv. forseti, segja að um eiginfjárhlutfall félagsins sem hæstv. ráðherra lofar stöðugt að verði 15% þegar opinbera hlutafélagið fer af stað, það er auðvitað bara fugl í skógi vegna þess að ekki er ekki komin í gegnum Alþingi Íslendinga nein beiðni um slíkt eða þeir fjármunir eru ekki til reiðu fyrir hæstv. ráðherra að lofa. Ég bið, hæstv. forseta Alþingis hér og nú, að heimila um þetta svar, fjárhag Ríkisútvarpsins, umræðu utan dagskrár við fyrstu hentugleika því að hér eru mál sem þarf að skoða sem þjóð og þing þurfa að komast til botns í.