133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það má líta á þessa tillögu sem þrautavaratillögu af okkar hálfu til að reyna að bjóða upp á sættir um meðferð þessara mála. Hún hefur líka þá lýðræðislegu skírskotun að nýr þingmeirihluti, sem hvort sem er kemur til með að bera ábyrgð á málefnum Ríkisútvarpsins á næsta kjörtímabili, hefði málið í sínum höndum og gæti búið um Ríkisútvarpið með þeim hætti sem hann kysi.

En það verður kosið um þetta mál í alþingiskosningunum í vor, hvorum megin kosninganna sem gildistaka laganna verður. Það er forgangsverkefni okkar í stjórnarandstöðunni að snúa ofan af þessu máli eftir kosningar fáum við til þess þingmeirihluta.

Við skulum hafa í huga, virðulegi forseti, að þetta eru endalokin á dæmalausum ferli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í fjölmiðlamálum allt þetta kjörtímabil. Það er rýr og hörmuleg eftirtekja að troða í gegn á síðustu stundu þessu umdeilda máli um Ríkisútvarpið með þeim hætti sem ríkisstjórnin er hér að gera og skömm Framsóknarflokksins mun lengi í minnum höfð.