133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:11]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. ræðumanns, þakka honum fyrir að taka þetta upp hér og tek undir orð hans varðandi starfsemi Samtaka áhugafólks um spilafíkn. Ég hef átt mjög gott samstarf við þau samtök og veit að þau vinna af mikilli ábyrgð að þessu máli sem fellur undir starfssvið þeirra.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður lagði fyrir mig er það svo að þann 29. mars sl. ritaði dómsmálaráðuneytið bréf til lögreglustjórans í Reykjavík þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Betsson.com hefur ekki verið veitt leyfi til happdrættisrekstrar af neinu tagi hér á landi. Samkvæmt 11. gr. laga um happdrætti, nr. 38/2005, varðar það refsingu ef aðili af ásetningi eða stórfelldu gáleysi auglýsir, kynnir eða miðlar hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögunum eða uppfyllir ekki skilyrði laganna. Í ljós hefur komið að Betsson.com hefur verið auglýst á fleiri miðlum, þar á meðal á vísir.is og fótbolti.net.

Ráðuneytið fer þess hér með á leit að ofangreind háttsemi verði rannsökuð og að lögreglan eftir atvikum hlutist til um að auglýsingar af þessu tagi verði stöðvaðar ef ráðuneytinu þykir sýnt að hér sé um brot á happdrættislögunum að ræða.“

Þetta var skrifað 29. mars 2006. Því miður er ekki komin niðurstaða í þetta mál og ég hef áréttað það innan ráðuneytisins að það sé nauðsynlegt að fá niðurstöðu í það og er sammála hv. þingmanni um það. Ég tel að 11. gr. happdrættislaganna banni slíkar auglýsingar.

Hitt er síðan annað mál og miklu flóknara í sjálfu sér, að ræða það umhverfi sem hv. þingmaður vék að þegar hann talar um spilamennsku á netinu. Um það hafa verið skrifaðar lærðar greinar og er mikið um það fjallað í öllum löndum. Hér er um ákveðið vandamál að ræða sem allar þjóðir glíma við og t.d. hafði þetta fyrirtæki Betsson fyrst aðsetur í Svíþjóð og samkvæmt fréttum voru það sænsk stjórnvöld sem beittu sér fyrir því að starfsemin færi ekki fram þar og nú mun það starfa á Möltu. Það eru aðeins tvö lönd í Evrópu, Malta og Bretland, sem heimila starfsemi fyrirtækja af þessu tagi innan sinna landamæra, fyrirtækja sem eru með spilamennsku á netinu sem nær út fyrir landamæri ríkjanna. Í öðrum löndum hefur þetta verið bannað, t.d. hafa Þjóðverjar bannað slíka spilamennsku á netinu en aðrir hafa bent á að það sé ekki skynsamleg leið að banna þetta alfarið því að sé banninu framfylgt, sem er mjög erfitt, leiði það ekki endilega til þess að menn hætti að spila heldur að þeir fari að spila þá ólöglega í viðkomandi löndum og þar með verði hvatt til þess að yfirvöld fylgi ekki fram reglum sem tryggja kannski gagnsæi og eftirlit.

Finnar sem þykja standa í fremstu röð þjóða samkvæmt flestum mælikvörðum heimiluðu fyrir mörgum árum að spilað yrði á netinu undir ströngu eftirliti fyrirtækis sem rekið er á vegum eða í skjóli finnska ríkisins. Þar eru settar skýrar reglur um það hvernig spilað skuli á netinu. Fólk verður að tilkynna sig og skrá sig og það verður að vera ljóst að um finnska borgara sé að ræða. Það er líka sett ákvæði um fyrir hve mikið menn geta spilað í hverri viku og það er fylgst með því hvernig það gengur og hve mikið menn geta haft á reikningi sínum. Ef meira er lagt undir en reglur heimila eru gerðar ráðstafanir í því skyni að koma í veg fyrir þetta þannig að þarna er verið að halda aftur af fíkninni. Eins og fram kemur hjá Samtökum áhugafólks um spilafíkn og annars staðar eru þeim mun meiri líkur á að menn ánetjist fíkninni, þeim mun meiri sem áhættan er.

Síðan er það þetta alþjóðasamstarf. Öllum er ljóst að til þess að ná tökum á þessu og skapa það öryggi sem við hv. þingmaður erum sammála um að þurfi að vera þarf líka alþjóðlegar reglur. Það er spurning hver á að setja þær reglur til að ná utan um þetta. Þetta er verið að ræða á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, á vegum OECD, á vegum Evrópusambandsins og víðar. Við fylgjumst náið með þessu í dómsmálaráðuneytinu. Ég get fullvissað hv. þingmann um það. Við höfum m.a. stuðlað að því að Íslendingar ættu fulltrúa við málflutning í EFTA-dómstólnum þar sem verið er að fjalla um mál bæði varðandi einkaleyfi í Noregi og einnig mál sem varða það að bresk fyrirtæki óska eftir því að fá að starfa hér á þessum markaði án tillits til þess hvert arðurinn rennur.