133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:47]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst taka undir áherslur hv. þm. Halldórs Blöndals, það verður að vera hægt að fara um þjóðgarðinn og til að tryggja það er vegagerð auðvitað nauðsynleg.

Hins vegar vil ég segja um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn, sem er minnsta stofnun umhverfisráðuneytisins með einum starfsmanni, að það eru engar hugmyndir um að veikja þá stofnun. Vegna orðaskipta sem urðu fyrr í kvöld vil ég líka árétta það að hvorki sú stofnun né Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, sem komst inn í umræðuna og var rædd hér áðan, hafa liðið fyrir nokkurs konar fjárskort. Það eru engar hugmyndir um að veikja þessa stofnun og ég veit ekki annað en að báðar þessar stofnanir séu að skila mjög góðum verkum.