133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

umræða um málefni útlendinga.

[10:56]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Vegna umræðunnar áðan um stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda ætla ég ekki að fara yfir þau orð sem þar féllu, um kosningamál o.s.frv. Mér finnst það vera á frekar lágu plani við þessar umræður að segja það. Ég tók það fram áðan að við munum íhuga með hvaða hætti málið er borið á Alþingi. Mér finnst mjög eðlilegt að Alþingi fjalli um málið, ég hef ekki hafnað því og finnst það eðlilegt.

Formaður þingflokks Samfylkingarinnar kom með tillögu um að það ætti að vera rætt sem skýrsla sem mér finnst mjög góð tillaga og eðlileg. Ég mun ræða það við hæstv. forseta þingsins (Gripið fram í.) hvernig við munum fara í málið. Í framhaldinu á stefnumótuninni, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, verður farið í að móta aðgerðaáætlun og framkvæmdaáætlun um að ná málinu fram. Það er auðvitað aðalmálið. Þessi mál eru á fleygiferð, það er mikið verið að vinna að málaflokknum víða í stjórnkerfinu og við þurfum auðvitað að fjalla um það á Alþingi, að sjálfsögðu.