133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:58]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fjarri sé það mér að beita nokkurn tíma kaldhæðni í svörum mínum eða máli gagnvart hæstv. menntamálaráðherra eða nokkrum öðrum þingmönnum. En ég skal trúa hæstv. ráðherra fyrir því að ég er ekki mótfallinn þessu frumvarpi, mér finnst það allrar athygli vert og ég er sammála henni um það að helsti kostur þess frá sjónarhóli námsmanna er sá möguleiki að geta leitað víðar fanga og þess vegna aflað sér betri sérhæfingar innan þeirra námsleiða sem Háskóli Íslands býður upp á nú þegar. Þannig er hægt að sérhæfa námið miklu meira án þess endilega að leggja út í þann mikla kostnað sem hugsanlega hefði þurft að gera innan vébanda Kennaraháskólans.

Hins vegar vil ég líka trúa henni fyrir því að ég hef efasemdir um að það sé í þetta ferðalag leggjandi nema samhliða sé tekin ákvörðun um að lengja kennaranámið verulega. Ég tel að lengingin muni að sjálfsögðu leiða til þess að við fáum miklu sérhæfðari kennara og þá kallar lengingin á sameininguna. Mín framtíðarsýn á menntunarmál þjóðarinnar byggir á því að þetta tvennt gæti þá farið saman, lenging kennaranámsins sem kallar á miklu meiri möguleika á sérhæfingu kennaraefna sem aftur eykur gæði skólanna sem þeir munu starfa í í framtíðinni og þá er þetta verulega fýsilegur kostur. En án þess að það liggi alveg skýrt fyrir að það eigi að lengja kennaranámið þá er ég ekki viss um að í þetta ferðalag sé leggjandi án þess að ég sé að leggjast gegn því. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að lenging kennaranámsins, hærri laun kennara og betri gæði menntunar í landinu sé alger lykill að farsæld okkar Íslendinga í framtíðinni sem mun byggjast á mannauði og menntun og því sem hugsunin býr til, þekkingarframleiðslu.