133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[15:50]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég átti eftir svolítið af ræðu minni áðan og ætla að nota tækifærið nú til að ljúka henni. Ég vil fyrst segja að úr því að við förum inn á þá braut, sem er sem sé gegn ráðum Sambands ungra sjálfstæðismanna, að setja almenn lög um æskulýðsstarfsemi, einnig þá sem rekin er og fram fer utan vébanda hins opinbera, væri kannski ástæða til að setja enn frekari markmið og leiðbeiningu í slík lög. Í 1. gr. frumvarpsins eru vissulega fögur orð sem ég get út af fyrir sig tekið undir með svipuðum fyrirvara og ungir sjálfstæðismenn setja, en ég lýsti þó hér áðan að ég teldi að um félagasamtök barna og ungmenna — barna sem er hin lagalega skilgreining — væri almannavaldinu rétt að setja ákveðnar reglur. Þá á ég við undir 18 ára því að ég sé ekki að almannavaldið geti leyft sér að setja reglur um félagsskap þar sem fullorðið fólk kemur saman. Það þætti sérkennilegt ef þingmenn eða ráðherrar tækju sig hér til og settu reglur um venjulegan félagsskap, settu honum markmið og einhvers konar leiðbeiningar.

Úr því að við erum að þessu hefði kannski verið við hæfi að setja reglur, leiðbeiningu eða einhvers konar markmiðslýsingu um fleira en mannkosti og lýðræðislega þátttöku. Æskulýðsstarf er ákaflega mikilvægt, bæði hið skipulega og það sem fram fer utan skipulegra vébanda en er þó með einhverjum hætti efnt til til þess að börn kynnist, læri að vera í félagi og læri hvert af öðru, kynnist sem flestum öðrum af ýmsu sauðahúsi og ekki bara í hinum þrengsta hóp hverfisins, sveitarfélagsins eða menningarhóps eða stéttarhóps af einhverju tagi. Nú er umræða sem betur fer í því tali sem við eigum hér hvert við annað um málefni innflytjenda, um mikilvægi þess að aðlögun og samlögun innflytjenda og þeirra sem fyrir eru á Íslandi fari m.a. fram í félagastarfi. Menn hafa talað um, og ég fagna því, íþróttahreyfinguna og ýmislegt æskulýðsstarf sem æskilegan vettvang fyrir þessa samlögun og aðlögun.

Hér er hvergi að finna neina hvatningu til þess að æskulýðsstarf sé opið fyrir börn innflytjenda eða annarra hópa sem kunna að vera í þeirri áhættu að lenda í einhvers konar einangrun, að lenda á einhvers konar glapstigum með ýmsum hætti, fötluð börn eða önnur börn, það er engin sérstök hvatning eða leiðbeining um það. Það er heldur ekkert í þessum töluverða lagabálki um hlutverk kynjanna eða ábyrgð æskulýðssamtaka og æskulýðsstarfsrekenda gagnvart jafnrétti kynjanna. Það er heldur ekkert um almennt samstarf æskulýðssamtaka, segjum, milli landshluta sem væri ákaflega æskilegt. Það er eins og ýmislegt vanti í þessi lög og mig grunar að það væri hægt að bæta úr því með því að skoða hvernig löggjöfin er hjá grannþjóðum okkar sem búa við svipaðar aðstæður og við með ýmsum hætti þó að þær séu yfirleitt flestar fjölmennari, þó ekki allar.

Hv. þm. Ásta Möller losaði sig áðan úr þeirri klípu sem hún var komin í með því gamalkunna ráði að ráðleggja þeim sem hér talar og öðrum í menntamálanefnd að gera það sem þeim sýnist í sambandi við 10. gr. Það ber auðvitað að þakka fyrir þau ráð en mér þótti samt að hún og hæstv. menntamálaráðherra bæru kannski meginábyrgðina á því að koma með þetta frumvarp hingað í þingið og þess vegna hlytu þær að skýra út hvers vegna það er svo. Einn flokkur afbrotamanna er tekinn sérstaklega út úr og talinn vera þannig að það eigi að banna þeim allt svona starf en ekki eru aðrir flokkar teknir út úr, þeir sem ég nefndi, og þar á meðal þeir sem neyta yfir sig af hinu löglega vímuefni. Ég spurði líka að því sem hvorki menntamálaráðherra né hv. þm. Ásta Möller hafa svarað, hvernig stæði á því að um kynferðisafbrotamenn gilda miklu harðari reglur í þessu frumvarpi en í barnaverndarlögunum. Ég skil ekki enn þá af hverju það er og spyr enn um það: Hvernig stendur á því að, segjum, ungri stúlku — vegna þess að þau kynjamál eru bara þannig — sem hefur leiðst út í vændi af einhverjum hörmulegum ástæðum er um aldur og ævi meinað að taka þátt í æskulýðsstarfi af nokkru tagi vegna þess afbrots sem hún þar hefur framið, (Gripið fram í.) um aldur og ævi? Hins vegar mætti hún samkvæmt barnaverndarlögum taka þátt í ýmsu starfi á þeirra vegum, bæði launuðu og sjálfboðastarfi sem hér er um að ræða.

Ég tel, eins og fram hefur komið, að við eigum að gæta hófs, okkur er skylt að gæta meðalhófs í lagasetningu. Það er skylda alþingismanna að gæta meðalhófs og ég tel að við eigum almennt að treysta forstöðumönnum fyrir því að ráða skynsamlega í stöður. Ég held að fáir forstöðumenn ráði afbrotamenn í stöður og þeir hljóta að kanna það sérstaklega þó að fyrir geti komið einhver slys í því ferli eins og lýst var áðan úr tölvupósti hv. þm. Ástu Möller, sem er hingað til eina dæmið sem nefnt hefur verið um að þetta geti gerst. Þegar vitnað er til umræðu síðustu daga um atburði sem hér hafa komið fyrir er væntanlega átt við Byrgið. Ég verð að viðurkenna að ég þekki það mál ekki í smáatriðum en mér er til efs að það eigi við hér. Ég kannast ekki við að sá sem þar er talinn hafa aðalsök, fyrir utan náttúrlega þá sem ekki litu eftir með því, hafi gerst sekur um kynferðisafbrot eða fíkniefni. Ég veit það þó ekki en ég hélt að hann væri fyrst og fremst fyrrverandi drykkjumaður.

Hér vegast á ýmis sjónarmið og þetta er viðkvæmt mál því að við viljum auðvitað að börnin okkar njóti alls þess vafa sem hægt er. Við megum hins vegar ekki dauðhreinsa svo í kringum börnin að við göngum á önnur sjónarmið sem við eigum að hafa, rök um persónufrelsi og rök um það að hér sé sæmilega frjálst samfélag. Við megum ekki láta tilfinningasveiflur hreyfa okkur í ótta eða nánast ábyrgðarleysi til þess að hjálpa til við að skapa hér eftirlitssamfélag, hálfgert lögregluríki, með því t.d. að sakavottorð verði nánast almenn krafa við ráðningu í ýmsar starfsgreinar. Ég tel það slæma þróun sem hér er nefnd að menn skuli krefjast þess að sakavottorð sé sýnt og ég tel að þetta frumvarp hér auki enn á það. Ég vek þá sérstaka athygli á því, sem gert var í umsögnum í fyrra, að með þessum lögum varpa þingið og ríkið af sér ábyrgð á þessu máli yfir á forstöðumenn samtaka eða stofnana og kannski forstöðumenn sveitarfélaga einkum með því að það eru engin viðurlög sett á það að brjóta 10. gr. eða annað í lögunum. Því vaknar spurningin: Hvað gerist ef einhver slíkur brýtur þessa 10. gr.? Það eru engin svör við því. Ríkið setur hina almennu reglu en síðan eiga aðrir bara að framkvæma og ríkið treystir sér ekki einu sinni til að beita refsingum eða viðurlögum (Forseti hringir.) enda mundi það kannski ekki standast fyrir dómi vegna reglunnar um meðalhófið sem ég nefndi áðan.