133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

landsþing Frjálslynda flokksins og stefna í innflytjendamálum.

[15:05]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mikið er gleðilegt, hæstv. forseti, þegar prestssonurinn kemur með þá andakt inn í þingsalinn sem hann hóf í þessari umræðu. Við fögnum því auðvitað í Frjálslynda flokknum þegar mönnum tekst vel upp á mánudagsmorgni að hefja verklag sitt og ræða um Frjálslynda flokkinn. Það er mjög ánægjulegt þegar við erum í umræðunni, hv. þingmaður og virðulegi forseti, ég gleðst yfir því enda höfum við ekkert að fela í starfsemi okkar. Þetta er lýðræðislegur og opinn flokkur og þess vegna höfum við m.a. valið að hafa landsþing okkar opin allt þar til kemur að kosningu. (GÓJ: Og fram yfir það.) Og fram yfir það ef menn eru mættir inn fyrir dyrnar. Það er ekki neitað að tékka þá inn sem inn eru komnir. Þannig er það, hæstv. forseti, og það er von að hv. þingmanni Framsóknarflokksins finnist þetta undarleg vinnubrögð, að reyna að viðhafa lýðræði og leyfa fólki að taka þátt í landsþingsstarfi.

Hv. þingmaður vék að því að kjörkassi hefði týnst. Það vildi einfaldlega svo til að í lokuðu talningarherbergi talningarmanna var einn kassi undir borði talningarmanna sem þeir gleymdu að gá að. Hann var ekki týndur, hann var bara inni í herberginu og þeir gleymdu einfaldlega að fara í gegnum kassann. Það breytti örlitlu um niðurstöðuna, þ.e. það varð aðeins lengra á milli frambjóðenda til varaformanns en áður hafði verið en breytti í engu niðurstöðunni. Öll kjörgögn voru talin, virðulegi þingmaður, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því. Ég vona að þér líði vel í framtíðinni. Ég ætla að afhenda þér hérna málefnahandbók Frjálslynda flokksins svo að þú megir öðlast ró.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á þá reglu þingskapa að þingmenn skuli ávarpa forseta úr ræðustóli en ekki aðra þingmenn.)