133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

landsþing Frjálslynda flokksins og stefna í innflytjendamálum.

[15:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki að undra þó að Framsóknarflokknum sé órótt þessa dagana. Eins og bent hefur verið á hefur gengi hans í skoðanakönnunum verið afar slakt og það er alveg eðlilegt að hv. þingmenn Framsóknarflokksins vilji beina athygli manna að einhverju öðru en nákvæmlega því.

Innflytjendastefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er afar skýr. Fyrir henni hefur verið talað í fjölda frumvarpa sem við höfum lagt fram á Alþingi Íslendinga, við höfum tekið þátt í þeim umræðum sem hér hafa verið síðustu daga, við höfum fagnað innflytjendastefnu ríkisstjórnarinnar og tekið henni afar vel. Við höfum engu að síður haft viðlíka sjónarmið og hv. 1. þm. Reykv. n. hafði hér áðan, við höfum gagnrýnt það að menn setji fram stefnu af þessu tagi án nokkurra annarra fyrirheita og án þess að íhuga í sjálfu sér hvað þeir eru að skuldbinda. Eru þeir ekki að skuldbinda næstu ríkisstjórn?

Mér segir svo hugur um, og mér sýnist kjósendur vera mér nokkuð sammála, að ekki sé mjög mikil eftirsókn eftir því að í þeirri ríkisstjórn verði Framsóknarflokkurinn þátttakandi. Mér sýnist vera meiri eftirspurn eftir því hjá kjósendum, ef lesa má rétt úr skoðanakönnunum, að fá nýtt fólk til liðs. Þess vegna höfum við, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, gefið út þá hreinu og tæru yfirlýsingu að ef ríkisstjórnarflokkarnir ná ekki meiri hluta á Alþingi er það bara svo að ríkisstjórnin er fallin. Hver hefur þá fellt þessa ríkisstjórn? Það er stjórnarandstaðan á Alþingi sem hefur þá fellt ríkisstjórnina.

Hvað síðan verður um ríkisstjórnarmyndun veit ég það eitt að hún fer ekki fram í sölum Alþingis örfáum vikum fyrir kosningar þó að hnén skjálfi á hv. framsóknarþingmönnum. Þau mál verða leidd til lykta annars staðar. (Gripið fram í.)