133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[17:15]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er stórmál á ferð þótt það láti lítið yfir sér eða að menn vilji láta svo vera. Í fyrsta sinn eftir setningu þjóðlendulaga er lagt fram frumvarp um að breyta þjóðlendu í eignarland.

Slík fyrirætlan hlýtur að þarfnast verulegrar umræðu um stöðu og meðferð þjóðlendnanna í landinu. Með lögunum um þjóðlendur er gefin sérstök lagaumgjörð en stefnumörkun um hugsanlega breytingu þeirra í eignarland hefur ekki farið fram. Um slíkt er ekki getið í lögunum sjálfum en kveðið á annars konar framsal til nýtingar.

Ég verð að segja það alveg eins og er vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er sérstakur ábyrgðarmaður þjóðlendna að mér finnst það vera honum og þeim sem á undan hafa verið til mikils vansa að þeir skuli ekki hafa sinnt því hlutverki sínu sem skyldi. Það er engin stefnumörkun til hvað þetta varðar. Það er engin áhersla á það að hún verði til. Það er einn starfsmaður í hlutastarfi í ráðuneytinu sem fjallar um þessi mál.

Þjóðlendunefnd kemur saman eitthvað tvisvar á ári til þess að afgreiða smærri mál og þau eru afgreidd með fyrirvörum vegna þess að það er ekki til undirstaða undir afgreiðslu nefndarinnar. Það er t.d. ekki hægt að afgreiða mál um það ef einhver þarf á landi að halda í þjóðlendum, t.d. undir rafmagnslínur, þá er ekki hægt að afgreiða hvaða endurgjald skuli koma í staðinn vegna þess að það eru engar reglur til um það.

Tillaga auðlindanefndarinnar sem kom fram í sumar liggur enn þá í salti. Hún hefur verið stöðvuð af í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Í henni eru tillögur um hvernig fara skuli með þjóðlendur hvað þetta varðar, hvernig eigi að ákveða hvert endurgjaldið skuli vera fyrir nýtingu þeirra o.s.frv. Sjálfstæðisflokkurinn heldur þeim tillögum föstum í þingflokknum. Þetta gefur auðvitað tilefni til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra, hver er eiginlega stefna Sjálfstæðisflokksins í auðlindamálum almennt?

Það er ekki bara að Sjálfstæðisflokkurinn haldi þessu máli sem ég nefndi áðan föstu, heldur hefur hann komið í veg fyrir annað mál sem er þó í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þ.e. að setja auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrána, auðlindir sjávar, eins og yfirlýsingar liggja fyrir um. Sjálfstæðisflokkurinn kemur líka í veg fyrir það. Fulltrúar hans í stjórnarskrárnefnd stöðva málið þar. Hæstv. forsætisráðherra ætti að grípa tækifærið núna til að gera grein fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málum.

Það hlýtur að kalla á mikla umræðu ef menn ætla núna að stökkva til og fara að ákveða að þjóðlendur skuli gerðar að séreignarlöndum. Þetta er í fyrsta sinn sem frumvarp um slíkt kemur fram og það án þess að nein stefnumörkun liggi fyrir eins og ég sagði áðan. Það er ástæða til þess að vekja athygli á því að í þjóðlendulögunum er ekkert minnst á sölu þjóðlendna. Það hlýtur að verða þeim mönnum sem takast á við ríkið um eignarhald á löndum mikið umhugsunarefni þegar sjálfur forsætisráðherrann stekkur fram og vill breyta þjóðlendu nú þegar í séreignarland.

Var þetta kannski alltaf bara ákafi ríkisins í að komast yfir fjármuni? Geta selt þjóðlendur til orkufyrirtækjanna í landinu, eða hvað? Ég held að það hafi ekki verið meiningin hjá þeim sem vildu að lögin um þjóðlendur yrðu samþykkt á sínum tíma. Öll lagasetningin ber anda þess að menn vilji að þjóðlendur séu það til framtíðar og að þjóðin eigi þau lönd.

Þess vegna var þessi rammi gerður um þjóðlendurnar með sérstökum hætti að menn voru auðvitað að búa hann til utan um sameiginlegar eignir þjóðarinnar til framtíðar. Hæstv. forsætisráðherra átti síðan að bera ábyrgð á málinu og takast á við að undirbúa hvernig staðið yrði að þessum málum. En það er í skötulíki að því leyti til að ekkert liggur fyrir um slíkt.

Hæstv. forsætisráðherra hefði auðvitað þurft að vera að kynna fyrir þjóðinni núna með hvaða hætti eigi að fara með þjóðlendur. En hann er ekki að því. Hæstv. forsætisráðherra mætir í þingsal Alþingis með tillögu um að selja þjóðlendur í hendur Landsvirkjun, gera þær að séreignarlandi.

Nú er það ekki svo að Landsvirkjun hafi ekki æðimikið meira land undir sér sem heyrir undir þjóðlendur. Á Þjórsártungnasvæðinu er gríðarlega mikið land sem er þjóðlenda og verður.

Það sem ég óttast er að þetta sé fyrsta skrefið sem Sjálfstæðisflokkurinn vill stíga og vill búa til fordæmi fyrir, þ.e. að breyta þjóðlendu í séreignarland. Að þetta sé fyrsta skrefið í áttina til þess að einkavæða Landsvirkjun með öllum þeim orkulindum og löndum sem Landsvirkjun hefur nú til umráða. Það er ekki rétt að það þurfi að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir Landsvirkjun hvað varðar þetta einstaka mál sem hér er til umræðu. Það liggur fyrir að öll réttindi Landsvirkjunar sem hún fékk samkvæmt samningunum sem ríkið gerði við hana á sínum tíma eru fyrir hendi.

Landsvirkjun hefur sem sagt rétt til þess að hafa á þessu landi þau mannvirki sem til þarf og réttindi til að nýta það vatn sem hún nýtir núna. Óbyggðanefnd skoðaði þetta mál mjög vandlega og komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði ekki verið að afhenda Landsvirkjun eignarhald á landinu, heldur réttindi til að nýta orkulindirnar og til að setja upp mannvirki á landinu.

Það er undarlegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra koma hér aftur með þetta mál eftir að Landsvirkjun er orðin að fullu í eigu íslenska ríkisins. Því rökin sem menn færðu fram fyrir málinu þegar það kom fram fyrst voru þau að það hefði orðið samkomulag milli eigendanna um að það þyrfti að gera þetta til þess að ríkið gæti staðið að fullu við sinn eignarhlut hvað varðar Landsvirkjun. Því var haldið fram að það væri ekki gert nema með því að þetta land yrði séreign Landsvirkjunar.

Nú eru hinir eignaraðilarnir, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, ekki lengur til staðar. Hvað er það þá sem rekur eftir? Það er ekki auðvelt að átta sig á því. Hæstv. forsætisráðherra nefndi það eitt sem rök í málinu að þeir sem eiga hjá Landsvirkjun, lánardrottnarnir, horfi til þess hvert eignarland Landsvirkjunar sé.

Ég trúi því ekki að Landsvirkjun sé svo illa stödd að það ráði úrslitum um framtíð Landsvirkjunar hvort þetta verði eignarland hennar eða land til afnota til framtíðar. Einfaldlega vegna þess að Landsvirkjun fyrirhugar engin önnur not á þessu landi en þau sem nú fara fram. Þess vegna mun arður Landsvirkjunar af nýtingu svæðisins og orkulindanna sem þar eru ekki breytast neitt við það þó að eignarhaldið yrði gert að séreign fyrir Landsvirkjun.

Þetta er að mínu viti fyrst og fremst vísbending um að menn ætli í einkavæðingargöngu gagnvart þjóðlendunum í landinu. Það grefur undan þjóðlendulögunum eins og þau voru samþykkt á sínum tíma. Það grefur líka undan tiltrú þjóðarinnar á því sem verið er að gera.

Ég held að þeir bændur og landeigendur sem eru núna að takast á við ríkið muni aldeilis þykjast hafa fengið rök í hendurnar ef það er þá meiningin að þjóðlendurnar verði bara settar á söluskrá. Hæstv. forsætisráðherra mæti bara á sölutorgið með þjóðlendurnar til þess að selja þær.

Nei, svona fara menn ekki að. Hér var verið að gera sáttmála við þjóðina um að hún ætti þetta land til framtíðar með þjóðlendulögunum. Menn töluðu um að gera þjóðgarð, jafnvel á öllu hálendinu af því þar væri sameiginlegt land þjóðarinnar sem ætti að vernda til framtíðar. Svo mæta menn í þingsal með þetta frumvarp og ætla að láta fara lítið fyrir sér en eru í raun og veru að stíga fyrsta skrefið til þess að taka þjóðlendurnar og selja þær. Það er ástæða til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra betur um þetta.

Það er enginn að trufla Landsvirkjun í að nýta þessi réttindi, eins og ég sagði áðan, og ég tel þess vegna að það geti ekki verið rök í málinu. Ég held að það sé ástæða til þess að hæstv. forsætisráðherra fari nákvæmlega yfir það á eftir, svo menn skilji betur á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er, hvers vegna menn leggja slíka áherslu á að koma með þetta mál inn í þingið núna og ljúka umfjöllun um það, þegar þess gerist ekki þörf vegna reksturs Landsvirkjunar.

Ég er búinn að nefna þá tilgátu sem ég hef í málinu en ég tel ástæðu til þess að hæstv. forsætisráðherra grípi tækifærið og skýri út fyrir þjóðinni hver vilji Sjálfstæðisflokksins er í því, Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur nú í vegi fyrir því að sáttin sem varð í auðlindanefndinni í sumar komi inn í þingið og menn fái tækifæri til þess að ræða þau mál. Hluti af því máli er nauðsynlegur fyrir þjóðlendunefndina og fyrir hæstv. forsætisráðherra sjálfan til þess að fylgja þjóðlendulögunum fram. Þar er kveðið á um hvernig eigi að velja á milli aðila sem vilja nýta orkulindir í þjóðlöndum og hvernig eigi að verðleggja þá nýtingu.

Hæstv. forsætisráðherra þarf líka að útskýra það fyrir þjóðinni hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn kemur í veg fyrir að ekki komi í framkvæmd sú stefna ríkisstjórnarinnar að auðlindir sjávar verði festar í stjórnarskrána.

Það er svo undarlegt með Sjálfstæðisflokkinn að hann hefur komist upp með það í gegnum tíðina að láta fara lítið fyrir sér í umræðu um mikilvæg mál eins og þessi. En hæstv. forsætisráðherra getur ekki verið í Alþingi með mál af þessu tagi öðruvísi en að fjalla um þau grundvallaratriði sem málið snýst um. Málið er nefnilega grafalvarlegt og segir okkur, eða a.m.k. mér, að ástæða sé til þess að tortryggja það sem hér er á ferðinni.

Ég hef séð það fyrir mér að í framtíðinni verði til auðlindir í þjóðareign, eins og auðlindanefndin frá árinu 2000 lagði til, sem ekki hefur komist til framkvæmda enn þá, og meðferð þeirra verði með þeim hætti að þar sé gætt jafnræðis milli þeirra sem fá að nýta þær auðlindir.

Það eru auðlindir af svipuðu tagi og hér er verið að tala um. En það eru líka auðlindir sjávar og auðlindir á hafsbotni. Allar þær auðlindir eru sameiginlega í eigu þjóðarinnar. Það þarf að fara fram gríðarlega mikil vinna í stjórnmálaflokkunum, hjá Alþingi og alþingismönnum um það hvernig þessum málum verði skipað til framtíðar. Sú vinna hefur einungis að litlum hluta farið fram. Þar hvílir auðvitað mikil ábyrgð á hæstv. forsætisráðherra sem sérstökum ábyrgðarmanni hvað varðar þjóðlendur. Hvorki núverandi hæstv. forsætisráðherra né fyrirrennarar hans virðast hafa sinnt þeirri ábyrgð sinni.

Nú væri gott að fá að hlusta á hæstv. forsætisráðherra fara yfir framtíðarsýn sína hvað varðar auðlindir í þjóðareign. Hvort hann telji það bara sjálfsagt mál að þær séu seldar eða afhentar sem eign til fyrirtækja eða einstaklinga í landinu eða hvort eigi að varðveita þær sem þjóðareign til framtíðar.

Þessi umræða hefur því miður ekki fengið þann framgang sem hún þyrfti. Menn hafa ekki sett þetta mál á dagskrá með sama hætti eins og Samfylkingin hefur gert. Hún hefur þá skoðun sem ég hef verið að lýsa, að umræddar auðlindir eigi að festa í stjórnarskrána og það eigi að gefa þeim þegnum sem fá að nýta þær tækifæri til þess að gera það í samkeppni á jafnræðisgrundvelli.

Ég tel að þetta mál eigi í raun og veru að deyja drottni sínum hér í þinginu í vetur, alveg eins og það gerði á síðastliðnum vetri. Það er ekki neinn skaði að því. Landsvirkjun getur haldið áfram rekstri sínum og menn geta þá haldið í þá vegferð sem nauðsynleg er sem er fólgin í því að finna þessum auðlindum framtíðarstefnu.

Ég held að það væri mjög þarft ef stjórnmálaflokkarnir lýstu þeirri framtíðarstefnu sinni í aðdraganda kosninganna sem nú fara í hönd. Ég bíð alveg sérstaklega spenntur eftir því að hlusta á þá lýsingu frá hæstv. forsætisráðherra, einfaldlega vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að skila auðu í þeirri umræðu en hann hefur á bak við tjöldin verið að vinna gegn því að þessar auðlindir verði að þjóðareign til framtíðar.

Um það hef ég nefnt dæmi í ræðu minni. Enda veit ég að ýmsir af forustumönnum Sjálfstæðisflokksins voru mjög ósáttir við það ákvæði sem ég nefndi og er núna í stjórnarsáttmálanum um að setja auðlindir sjávar í þjóðareign og að sumir hverjir þeirra eru líka á móti því að þjóðlendur séu í eign þjóðarinnar og telja þeim best fyrirkomið með því að þeim verði framvísað áfram til einhverra einkaaðila.

Um það þarf að fara fram umræða og nú er tækifærið. Ég held að hæstv. forsætisráðherra gerði nú vel í því að lýsa þeirri framtíðarsýn sem hann hefur. Í síðari ræðu minni ætla ég að fara yfir það sem óbyggðanefnd fór yfir og skoðaði vandlega, þ.e. tilurð þeirra réttinda sem hér um ræðir en hún komst að þeirri niðurstöðu með mjög skýrum hætti að þeim eignarréttindum sem hæstv. forsætisráðherra vill núna að verði vísað til Landsvirkjunar sem séreign hafi aldrei verið meiningin að gera að séreign Landsvirkjunar þegar samningurinn var gerður.

Rökin sem þar eru færð fram eru mjög sannfærandi. Það er hins vegar alveg ljóst frá hendi óbyggðanefndar að réttindin til nýtingar á vatni og því landi sem þarf undir mannvirki, (Forseti hringir.) hafa verið fyrir hendi.