133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vátryggingarsamningar.

387. mál
[19:19]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég deili áhyggjum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur í þessu máli og ég held að við í efnahags- og viðskiptanefnd þurfum að fara nokkuð vel yfir þau grundvallaratriði sem koma fram í þessu frumvarpi sem lýtur að breytingu á lögum um vátryggingarsamninga.

Í stuttu máli og eins og segir í umsögn Fjárlagaskrifstofunnar felst í þessu frumvarpi að gerðar séu „breytingar er varða upplýsingaöflun vátryggingafélaga. Lagt er m.a. til að vátryggingafélagi verði heimilt að afla upplýsinga um þá sjúkdóma sem vátryggingartaki, eða vátryggður, svo og foreldrar, systkini og börn vátryggðs eru eða hafa haft.“

Eins og má heyra á þessari lýsingu fjármálaráðuneytisins á frumvarpinu er hér um að ræða grundvallaratriði og í rauninni mjög spennandi spurningu um hversu langt megi ganga þegar kemur að öflun upplýsinga hjá þriðja aðila, ekki síst í ljósi þeirrar sérstöðu sem tryggingarumhverfið hefur. Hér togast að sjálfsögðu á ákveðnir hagsmunir, hagsmunir tryggingafélagsins að geta fengið sem ítarlegastar upplýsingar til að geta metið áhættuna í ljósi ákvörðunar sinnar þegar kemur að iðgjaldinu og síðan þeir hagsmunir sem liggja á bak við persónuréttindi viðkomandi og ekki síst þriðju aðila, í þessu tilviki fjölskyldu viðkomandi.

Ég hef ítrekað sagt í þessum sal að mér finnst ríkisstjórnin iðulega vera að ganga æ lengra á réttindi einstaklinga í landinu og ég held að hæstv. dómsmálaráðherra eigi metið hvað það varðar eins og má sjá á málaskrá hans þar sem hann saxar hratt og iðulega að réttindum einstaklinga í samfélaginu en ég ætla ekki að þreyta þjóð eða þing með upptalningu þeirra mála en listinn er langur í hans tilviki.

Hér þarf að fara fram ákveðið hagsmunamat og strax við 1. umr. málsins vil ég lýsa yfir efasemdum um hvort hér sé hugsanlega gengið of langt á réttindi einstaklinganna, hvort hér sé verið að opna á heimild tryggingafélaganna til að haga iðgjöldum þannig að þau miðist við sjúkrasögu eða áætlaðar sjúkrasögur hjá heilu fjölskyldunum. Í 2. mgr. 82. gr. frumvarpsins kemur fram bannregla um að ekki sé heimilt að nota niðurstöður erfðarannsóknar á einstaklingi þegar kemur að því að meta iðgjöld og hvort viðkomandi einstaklingur sé hæfur til að kaupa tryggingu.

Þessi bannregla er góð og gild og eðlileg í mínum huga. En röksemdir þar á bak við gætu einmitt átt vel við þá heimild sem hæstv. viðskiptaráðherra er að leggja til að við veitum tryggingafélögunum í þessu tilviki. Þær röksemdir sem lúta að því að ekki sé heimilt að nota niðurstöður erfðarannsókna þegar kemur að veitingu tryggingar eða sölu tryggingar gætu alveg eins átt við að ekki sé heimilt að fá upplýsingar frá þriðja aðila þegar kemur að hugsanlegri sölu tryggingar. Þetta er ákveðin þversögn að mínu mati.

Það er alveg ljóst að ef markmiðið er að veita tryggingafélögunum hvað víðtækastar heimildir þá spyr maður sig af hverju hæstv. viðskiptaráðherra gangi þá ekki lengra og heimili tryggingafélögunum að nýta sér niðurstöður erfðarannsókna. Eflaust mætti fá betra mat á líkum, þegar kemur að líkum á ákveðnum sjúkdómum ef viðkomandi tryggingafélagi væri heimilt að styðjast við slíkar niðurstöður. En löggjöfin hefur sem betur fer spyrnt hér við fótum og sagt að hér séu ákveðin mörk. Við í stjórnarandstöðunni, a.m.k. í Samfylkingunni, erum hins vegar að velta fyrir okkur hvort þau mörk séu að færast að einhverju leyti. Eftir því sem tryggingafélögin fá ítarlegri upplýsingar um heilsufar viðkomandi og fjölskyldu hans því nákvæmari verða væntanlega útreikningar þeirra og þar af leiðandi er hægt að lækka eða hækka iðgjöldin eftir því mati. En einhvers staðar þarf að stoppa í ljósi eðlis trygginga, hvað er í rauninni trygging.

Trygging er auðvitað mjög merkilegt fyrirbæri sem lýtur að því að viðkomandi greiðir iðgjald í samræmi við einhverja áhættu en síðan dreifir tryggingafélagið viðkomandi áhættu innan rekstursins svo að tryggingafélagið tapi ekki á starfsemi sinni. Á móti er áhættu margra einstaklinga dreift á marga einstaklinga. Þetta er í stuttu máli eðli trygginga, það er verið að dreifa áhættu á einhvers konar áföllum eða nauðsyn á tryggingum.

Á bak við þetta frumvarp er auðvitað sú réttlæting að tryggingafélögin geti metið áhættuna og þá má alveg spyrja sig hvort þau hafi einfaldlega verið að meta áhættuna rangt til þessa og að hvaða leyti þá. En við þessa 1. umr. langar mig til að fara aðeins yfir skoðun formanns Læknafélags Íslands sem hann sendi þingmönnum og að ég tel einnig hæstv. viðskiptaráðherra, 23. nóvember 2006. Þar segir formaður Læknafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Mál skylt þessu kom upp árið 1996 þegar Íslensk erfðagreining hafði í texta upplýst samþykki þeirra sem tóku þátt í rannsóknum fyrirtækisins að þeir hétu því að upplýsa fyrirtækið um ættingja sína sem hefðu sama sjúkdóm og þeir og mundu hvetja þá til að taka þátt í umræddri rannsókn. Læknafélag Íslands brást hart við þessu ákvæði hins upplýsta samþykkis og málið kom til kasta siðfræðiráðs þess. Það var síðan niðurstaða Íslenskrar erfðagreiningar að fella þetta ákvæði um upplýsingaöflun um heilsufar þriðja aðila úr hinu upplýsta samþykkisformi fyrirtækisins.“

Stuttu seinna segir í sama áliti, með leyfi forseta:

„Viðbrögð fyrirtækisins“ — í þessu tilfelli Íslenskrar erfðagreiningar — „voru eðlileg og jákvæð þar sem allar viðurkenndar alþjóðareglur sem fjalla um vísindasiðferði útiloka þennan möguleika og ég geri ráð fyrir að gildandi reglur samfélagsins á þeim tíma og þær sem síðar hafa verið settar, svo sem í lögum um réttindi sjúklinga og í lögum um persónuvernd um meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga, endurspegli sömu sjónarmið.

Viðskiptaráðherra leggur frumvarpið fram til að liðka fyrir viðskiptum með vátryggingar. Það eru því viðskiptahagsmunir vátryggingafélaganna og viðskiptamanna þeirra sem hljóta að vera þeir meginhagsmunir sem lagasmíðin tekur til. Hagsmunir þriðja aðila verða að koma til álita þó að þeir eigi enga hagsmuni í viðskiptasamningi þeim sem gera á og lögin eiga að liðka fyrir. Önnur lög vernda þennan rétt og þessa nýsmíði laga verður að skoða í ljósi þessa réttar og þess fordæmis sem lögin kunna að gefa um breyttar áherslur hvað varðar almenna persónuvernd í þjóðfélagi okkar.

Viðhorf tryggingafélaganna er það að hækka þurfi tryggingar á öllum ef ekki fást upplýsingar um ættgenga sjúkdóma þannig að reikna megi áhættu þeirra sem bera hugsanlega arfgenga sjúkdóma og þar með hækka iðgjöld þeirra eða hafna tryggingarsamningi með öllu. Hér er ekki um að ræða aukna áhættu vegna sjálfráðrar hegðunar eða lífsstíls heldur örlög sem fólki eru búin í móðurkviði. Um þetta mætti rita langt mál en ég sleppi því að þessu sinni en lýsi einungis þeirri skoðun minni að ég tel að sjónarmið tryggingafélaganna stangist í meginatriðum á við þann skilning sem almennt er lagður í hugtakið trygging. Í raun koma fullnægjandi rök gegn þessu lagafrumvarpi fram í frumvarpinu sjálfu í 2. mgr. 1. gr. þessa frumvarps þar sem takmarkanir eru settar við heimildum vátryggingarsala til upplýsingaöflunar. Munurinn á því sem takmarkað er með 2. mgr. og því sem heimilað er með 1. mgr. er bitamunur en ekki fjár.“

Þetta er viðhorf Sigurbjörns Sveinssonar, formanns Læknafélags Íslands, og það verður að sjálfsögðu kallað eftir viðhorfum hans innan nefndarinnar en hann vekur upp ákveðnar grundvallarspurningar sem bæði ráðherra og við í nefndinni og þingheimur þarf að svara.

Það er sömuleiðis ástæða til að huga að athugasemdum Persónuverndar og afstöðu þeirra. Við getum skoðað niðurstöðu Persónuverndar í máli 103 frá 16. ágúst 2005 þar sem er verið að fjalla um lík mál, það er sama svið. Eitt af niðurstöðuorðum Persónuverndar í því máli laut að því að öflun upplýsinga hjá þriðja aðila um mann sem sækir um líf- og sjúkdómatryggingu er óheimil nema fyrir liggi skriflegt upplýst samþykki hans og að honum hafi verið veitt fræðsla í samræmi við ákvæði 21. gr. laga nr. 77/2000. Það þarf að skoða hvort þetta frumvarp sé í samræmi við þessa niðurstöðu Persónuverndar og sömuleiðis má hafa í huga umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um vátryggingarsamninga þegar það var hér síðast til umræðu.

Þar stóð, með leyfi forseta:

„Í 2. mgr. 82. gr. er kveðið á um að vátryggingafélagi sé óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar um erfðaeiginleika manns og áhættu á því að hann þrói með sér eða fái sjúkdóma. Félaginu sé einnig óheimilt að óska eftir rannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé á að fá slíkar upplýsingar. Persónuvernd fagnar þessu ákvæði en gerir þó athugasemd við niðurlag þess, þ.e. að þetta bann gildi þó ekki um athugun á núverandi eða fyrra heilsufari mannsins eða annarra einstaklinga. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að samkvæmt þessari undanþágu má athuga heilsufar skyldmenna til að meta tilefni til að rannsaka fyrra eða núverandi heilsufar þess sem óskar vátryggingar. Ekki sé hins vegar heimilt að athuga heilsufar skyldmenna til að kanna arfgenga þætti.

Persónuvernd telur ekki unnt að aðgreina þetta tvennt.“ — Takið eftir þessu. — „Í athugasemdunum segir raunar að ljóst sé að munurinn á þessu tvennu sé ekki glöggur. Aftur á móti telur Persónuvernd að athugun á heilsufari skyldmenna til að meta tilefni til að rannsaka heilsufar vátryggðs geti eðli málsins samkvæmt ekki falið í sér annað en könnun á því hvort telja megi hættu á arfgengum sjúkdómi og hvort sérstök könnun á heilsufari vátryggðs sé þar af leiðandi nauðsynleg.“

Þetta er umsögn Persónuverndar þegar við síðast breyttum ákvæðinu sem nú er til umræðu og að okkar mati er gengið lengra að þessu sinni. Það má velta því fyrir sér og spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort honum sé kunnugt um að Persónuvernd sé að fullu leyti sátt við þá útgáfu frumvarpsins sem hér er til umræðu. Í greinargerð frumvarpsins er minnst á að starfsmenn Persónuverndar hafi komið að undirbúningi frumvarpsins en það segir ekkert um hvort þeir séu sáttir við þá útgáfu sem hæstv. viðskiptaráðherra leggur hér á borð. Þetta er eitthvað sem við munum auðvitað fá á hreint í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar, þ.e. hvort bæði sjónarmiðum formanns Læknafélagsins og Persónuverndar sé mætt með einhverjum hætti í þessu frumvarpi og ef ekki hvort vilji sé til að breyta frumvarpinu.

Ég tók eftir því og ég vona að ég hafi haft rétt eftir hæstv. viðskiptaráðherra að hann hafi sagt áðan að þetta frumvarp miði m.a. við að tryggja samkeppnisstöðu íslenskra tryggingafélaga á tryggingamarkaðnum. Það er gott og vel ef svo er og kannski liggur það í augum uppi að þetta frumvarp er í þágu tryggingafélaganna en þá fer maður að spyrja sig: Hvað með hagsmuni einstaklinganna, hvað með hagsmuni hinna þriðju aðila viðkomandi einstaklings sem sækir eftir tryggingu? Hvað með persónuréttindin og hvað með þau mörk sem hljóta alltaf að vera einhvers staðar þegar kemur að sölu trygginga og heimild tryggingafélaganna til að meta líkur á áhættu á áföllum?

Þetta er stórt mál að okkar mati sem snertir grundvallaratriði og grundvallarspurningar sem við þurfum svo sannarlega að fara vel yfir. Það er ástæða til að tortryggja sitjandi ríkisstjórn þegar kemur að persónuréttindum og friðhelgi einkalífsins og réttindum þriðja aðila eins og áður hefur verið rakið þannig að í þessum efnum hræða sporin. Ég vil því að efnahags- og viðskiptanefnd taki góðan tíma í að fara yfir álitamálin sem hér koma upp en það getur vel verið að það muni einfaldlega brotna á pólitískum ágreiningi, að þetta sé einfaldlega leið sem meiri hlutinn á þingi í dag sé pólitískt hlynntur. Að sama skapi getur ágreiningurinn við stjórnarandstöðuna hugsanlega verið það mikill að hér myndist ekki þverpólitísk samstaða um málið, en það á kannski eftir að reyna betur á það í meðförum þingsins.