133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vátryggingarsamningar.

387. mál
[19:44]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um frumvarp til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga vil ég aðeins segja nokkur orð og það varnaðarorð, að ganga svo langt sem gert er í frumvarpinu, þ.e. að draga til ábyrgðar ekki eingöngu þann einstakling sem er að kaupa sér eða fá tryggingu heldur á hann að að veita upplýsingar um heilsufar eða sjúkdóma náinna ættingja, hér upp talda foreldra, barn eða systkini, og gefa upplýsingar um heilsufar eða sjúkdóma þeirra.

Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að þrátt fyrir þetta ákvæði um að einstaklingur skuli veita upplýsingar um sjúkdóma og að heimilt sé að fá upplýsingar annars staðar frá með skriflegu samþykki, þá er félaginu óheimilt að fá „upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi og geta gefið til kynna hættu á að hann þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm“ eins og hér stendur.

Í mínum huga er allt að því samasemmerki þarna á milli. Að vera skyldugur til að gefa upplýsingar um sjúkdóma sem nánir ættingjar, svo sem foreldrar, systkini eða börn, eru haldnir því draga má ákveðna ályktun af þeim sjúkdómum, hvort þetta séu arfgengir sjúkdómar og áhætta metin af því hvort viðkomandi einstaklingur sem leitar sér trygginga geti fengið þennan samsvarandi eða viðlíka sjúkdóm. Ég tel að það sem er í núgildandi lögum, þar sem spurt er almennt um heilsufar viðkomandi sem kaupir sér tryggingu, sé í rauninni nægilegt. Sá sem kaupir sér sjúkratryggingu eða líftryggingu er best til þess fallinn að gefa upplýsingar um hvernig honum líður, hvaða áhættuhegðun hann stundar og hvers konar líferni hann lifir, hvort viðkomandi reykir, eða drekkur, hvort hann er of þungur o.s.frv. Það sé almennt heilsufar sem eigi að liggja til grundvallar, áhættulifnaðarhættir og sjúkdómar sem hann sjálfur veit um. Þetta tel ég vera alveg nægilegt fyrir tryggingafélag að hafa í höndunum þó ekki sé gengið svo langt, eins og hér er gert, að eiga að gefa upp sjúkdóma ættingja því það gengur nokkuð nærri því að fá niðurstöður erfðarannsókna eins og verið er að leita eftir.

Frumvörp svipaðs eðlis lágu fyrir þinginu fyrir fáum árum. Þar var vandlega farið yfir þætti sem lúta að persónuvernd, læknisfræðilegum og siðferðilegum álitamálum og mjög alvarlegar athugasemdir komu frá Læknafélaginu og Persónuvernd varðandi það að krefjast upplýsinga um sjúkdóma þriðja aðila. Ég tel því að hæstv. ráðherra hafi átt að hlusta eftir þeim ábendingum áður en frumvarpið var samið og hafa þær til hliðsjónar og leggja metnað í að tryggja frekar hag einstaklinganna en rekstrarafkomu vátryggingarfélaganna, eins og virðist vera í frumvarpinu.

Ég hvet hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að kalla aftur til þá aðila sem þekkja hvað best til persónuverndar og læknisfræðilegra sjónarmiða, eins og vísindasiðfræði, til að fara vel yfir þær breytingar sem hér er verið að leggja til. Ég tel að nauðsynlegt sé fara varlega og vera ekki að veita vátryggingafélögunum meira vald til að kortleggja ekki eingöngu heilsufar þess sem verið er að tryggja heldur einnig heilsufar náinna ættingja.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort það hafi verið athugað hver staða þessara nákomnu ættingja, foreldra, systkina, barna, geti þá verið hjá viðkomandi tryggingafélagi ef þeir aðilar vilja síðan fá tryggingu. Er þá ekki búið að kortleggja heilsufarsástand þeirra eða sjúkdómssögu sem hugsanlega getur haft áhrif á mat þeirra og möguleika á tryggingu eða kostnað við sjúkra- og líftryggingu?

Hæstv. forseti. Ég vil eingöngu mæla sterk varnaðarorð, fara varlega í þessu og hlusta vel eftir ábendingum Persónuverndar og þeirra sem þekkja best til vísindasiðfræði, láta hagsmuni einstaklinganna sitja í fyrirrúmi og leggja vandaða vinnu í afgreiðslu frumvarpsins.