133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði.

523. mál
[21:18]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði. Frumvarpið er á þskj. 789.

Frumvarp þetta er samið með hliðsjón af niðurstöðum nefndar um viðurlög við efnahagsbrotum sem skipuð var af forsætisráðherra að tillögu dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra. Frumvarp til breytinga á samkeppnislögum sem mælt var fyrir fyrr á þessum sama fundi er einnig byggt á niðurstöðum nefndarinnar.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, um fjármálafyrirtæki, starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, rafræna eignaskráningu verðbréfa, verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, vátryggingastarfsemi, lögum um miðlun vátrygginga og um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með þeirri starfsemi sem lýtur þessum lögum.

Helstu breytingar á gildandi rétti sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að refsiábyrgð vegna brota gegn lögum á fjármálamarkaði verði afmörkuð nánar en samkvæmt gildandi lögum.

2. Lagt er til að sett verði í löggjöf á fjármálamarkaði ákvæði um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki og einstaklinga vegna brota á lögunum, en nú er aðeins heimild til álagningar stjórnvaldssekta í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003. Þá er lagt til að sérstök fyrningarákvæði varðandi heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir verði lögfest. Lagt er til að heimildir Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir falli niður þegar sjö ár eru liðin frá því að háttsemi lauk ef um er að ræða meint brot gegn ákvæðum verðbréfaviðskiptalaga. Í öðrum tilfellum falli þær niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.

3. Þá er lagt til að kveðið verði á um að brot gegn lögum á fjármálamarkaði sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu. Einnig er lagt til að nokkrum ákvæðum verði bætt við lög á fjármálamarkaði sem stuðla eiga að samvinnu lögreglu og Fjármálaeftirlitsins við rannsókn á þeim brotum sem geta bæði varðað stjórnvaldssektum og refsiábyrgð.

4. Lagt er til að lögfest verði ákvæði er kveður á um rétt einstaklings til að fella ekki sök á sjálfan sig við rannsókn á stjórnsýslustigi.

5. Loks er lagt til að lögfest verði heimild til handa Fjármálaeftirlitinu til að ljúka málum með sátt.

Viðurlagaákvæði um starfsemi á fjármálamarkaði voru lengst af mjög almenn. Þó að hugað hafi verið sérstaklega að viðurlagaákvæðum við heildarendurskoðun laga á fjármálamarkaði hin síðari ár skortir enn á samræmingu. Í frumvarpi þessu er lagt til að í viðurlagaákvæðum á fjármálamarkaði verði tiltekið hvaða ákvæði þeirra geta orðið grundvöllur refsinga og hvaða ákvæði geti leitt til stjórnvaldssekta. Þá felur frumvarpið í sér samræmingu á viðurlagaákvæðum þeirra laga sem heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins.

Reynslan sýnir að sjaldan hefur verið ákært og dæmt á grundvelli refsiákvæða laga á fjármálamarkaði. Því er ekki skynsamlegt að lögfesta fangelsi sem möguleg viðurlög við of mörgum brotum þegar slíkri refsingu er sjaldan beitt nema vegna fárra og alvarlegra brota. Hefur lögfesting strangra refsiviðurlaga í slíkum tilvikum verið talin til þess fallin að draga úr almennum varnaðaráhrifum refsinga.

Lög um verðbréfaviðskipti eru einu lögin á fjármálamarkaði þar sem eiginlegar stjórnvaldssektir liggja við brotum á ákvæðum laganna. Beiting stjórnvaldssekta vegna brota á lögunum hefur reynst vel og var heimild til að beita stjórnvaldssektum vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti beitt í 42 tilvikum á tímabilinu 1. júlí 2003 fram í september 2006.

Í lögum á fjármálamarkaði er víða að finna matskennd ákvæði sem eru flókin og erfið viðfangs og útheimta m.a. greiningu á hegðunarmynstri, þróun á markaði yfir löng tímabil, aðstæðum á markaði, viðskiptasögu aðila auk mats á áhrifum upplýsinga o.fl. Fjármálaeftirlitið hefur sérþekkingu á löggjöf á sviði fjármálamarkaðar og er því æskilegt að þekking stofnunarinnar sé nýtt betur en nú er við úrlausn mála er varða brot á löggjöfinni. Þá kalla hagsmunir markaðarins og málsaðila sjálfra á að mál séu leidd til lykta á tiltölulega skömmum tíma og að brugðist sé hratt og markvisst við brotum. Telja verður líklegra að markmiðum um eftirfylgni, skilvirkni, nýtingu sérfræðiþekkingar og hraða málsmeðferð verði betur náð ef brot gegn lögum á fjármálamarkaði geta varðað stjórnvaldssektum í ríkara mæli en nú er.

Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði sem miða að því að kveðið verði skýrar á um verkaskiptingu lögreglu og ákæruvalds annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar. Lagt er til að meint brot á lögum á fjármálamarkaði, sem bæði varða stjórnvaldssektum og refsingu, verði rannsökuð hjá Fjármálaeftirlitinu sem metur hvort mál skuli kært til lögreglu eða lokið hjá stofnuninni. Fjármálaeftirlitinu ber að vísa málum til lögreglu í þeim tilvikum þar sem brot telst meiri háttar.

Nái frumvarp þetta fram að ganga stuðlar það að skýrari verkaskiptingu lögreglu og Fjármálaeftirlitsins við rannsókn á meintum brotum á fjármálamarkaði. Þá mun sérfræðiþekking sú sem fyrir hendi er í Fjármálaeftirlitinu nýtast betur en nú er við rannsókn og málsmeðferð vegna slíkra brota. Því er mjög mikilvægt að frumvarpið verði afgreitt á þessu þingi.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.