133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:48]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það og er þeirrar skoðunar að að sjálfsögðu eigi að láta reyna til hins ýtrasta á ákvæði laga hvað varðar ábyrgð aðila í þessu máli. Ef þau lög reynast ekki nógu haldgóð í þessum efnum þurfum við að fara yfir það og endurskoða þau.

Norðmenn hafa hert verulega á sínum reglum, eins og m.a. ákveðnar íslenskar útgerðir þekkja að gefnu tilefni. Þar gilda mun strangari reglur en áður var um siglingar með ströndum sem og um beina gegnumferð í lögsögu þeirra. Það eru hlutir sem við þurfum að taka til skoðunar, þ.e. hvað við getum á grundvelli þjóðarréttarins gengið langt t.d. í því að beina gegnumferð frá ströndum landsins, þó það sé utan 12 mílna, en grunnreglan í þjóðarrétti er jú sú að menn hafa heimild til frjálsrar gegnumferðar utan 12 mílna.

En á móti koma ákvæði sem skylda strandríki til að venda lögsögu sína og auðlindir, ákvæði Alþjóðahafréttarsáttmálans og ákvæði í alþjóðlegum siglingarétti sem má grípa til í þessu sambandi. Ég held því að full þörf sé á að fara yfir þessi mál í heild sinni.

Mér er ekki alveg ljós hver munurinn er á glæfrasiglingu og venjulegri siglingu, þ.e. ef menn fara að lögum. Ég held að við ættum ekki að gera aðra að sökudólgum en þá sem raunverulega bera ábyrgð, þ.e. íslensk stjórnvöld, svo fremi sem ekki sé sýnt fram á að menn hafi brotið í bága við lög og reglur og farið út fyrir viðurkenndar siglingaleiðir. Þá er ekki mikið við þá að sakast. Það er þá okkar að hafa ekki gripið til ráðstafana og verið betur á verði í þessum efnum.

En það er að minnsta kosti alveg ljóst að það er margt sem kallar á að yfir þessi mál sé farið. Annars vegar þróun sem orðin er í flotanum og hvernig skip eru mönnuð í dag, og ekki síður hitt að hér á að fara í stórauknum mæli að flytja gríðarstóra farma af gasi og olíu fram hjá landinu og full ástæða til að taka þau mál föstum tökum.