133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

fyrirspurnir á dagskrá.

[14:04]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt að samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu bíði 56 fyrirspurnir munnlegs svars. Það var að sjálfsögðu ætlunin þegar vikuáætlun var gerð og þegar unnið var að því að skipuleggja dagskrá þessa fundar í dag að unnt yrði að taka mun fleiri fyrirspurnir til afgreiðslu hér og var eftir því leitað bæði hjá fyrirspyrjendum og ráðherrum hverjir ættu þess kost að vera viðstaddir. Niðurstaðan varð sú að ekki reyndist unnt að taka fleiri fyrirspurnir á dagskrá í dag. Eins og hæstv. forseti hefur getið um við umræðuna eru forföll bæði hjá ráðherrum og fyrirspyrjendum þannig að það verður auðvitað að hafa jafnvægi í þeirri umræðu.

Það liggur fyrir að ráðherrum ber skylda til þess að svara fyrirspurnum og enginn deilir um að fyrir því er gert ráð í þingsköpum. Eftir því starfar auðvitað stjórn þingsins, að reyna að koma því í kring. Hins vegar er rétt að hafa það í huga líka, vegna ummæla sem hér féllu áðan um lélegar heimtur á ráðherrabekkjunum, að í fyrirspurnatíma er ekki mætingarskylda með sama hætti og á aðra þingfundi þannig að það er ekki venja að hér mæti aðrir ráðherrar en þeir sem eru komnir til þess að svara fyrirspurnum.

Hins vegar mundi ég mælast til þess, vegna þess að forseti hefur gefið skýringar hér við umræðuna á því að ekki gefst kostur á að svara fleiri fyrirspurnum í dag, að við leyfðum þeim fyrirspurnum að komast að sem hér eru á dagskrá þannig að við getum þá einbeitt okkur að þeim. Athugasemdir eru komnar fram og ætti að vera óþarfi að framlengja umræðuna frekar að þessu leyti.