133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

bættir innheimtuhættir.

482. mál
[15:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að fagna því að fyrirspurnir mínar hver á fætur annarri til hæstv. viðskiptaráðherra hafa þau áhrif að hæstv. viðskiptaráðherra bregst þannig við að hann telur málið þess eðlis að það þurfi að grípa til aðgerða og skoða lagasetningar í þeim efnum. Ég nefni lög um greiðsluaðlögun sem hæstv. ráðherra ætlar að setja í gang núna rétt fyrir kosningar, en þótt ég hafi kallað eftir slíkri löggjöf í 10 ár þá er það fyrst núna, rétt fyrir kosningar sem það er gert. Það er auðvitað ekki við núverandi viðskiptaráðherra að sakast alveg í því efni vegna þess að hann hefur ekki setið lengi í stól ráðherra. Sama kemur upp úr kafinu varðandi löggjöf um bætta innheimtuþætti sem ég hef kallað eftir í mörg ár og reyndar fyrrverandi viðskiptaráðherra á undan mér eins og ég nefndi og það er núna rétt fyrir kosningar sem hæstv. ráðherra telur líka ástæðu til að skoða það mál, að það þurfi að treysta stöðu skuldara og bæta hér innheimtuhætti. Þetta er auðvitað afar gott, virðulegi forseti, en ég vildi óska þess að þetta hefði verið gert fyrr þannig að við værum með löggjöf um bætta innheimtuhætti vegna þess að það ástand sem nú er er óviðunandi eins og reyndar hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir sagði, að þetta væri í óviðunandi farvegi.

En varðandi það að málið sé nú í því horfi sem Samkeppnisstofnun vill þá finnst mér það afar sérstakt vegna þess að það eru í gildi lög um að dómsmálaráðherra eigi að setja út leiðbeinandi reglur varðandi gjaldskrá lögmanna og hún hefur ekki verið sett. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það, og það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að málið hafi ekki náð fram að ganga á sínum tíma vegna viðbragða efnahags- og viðskiptanefndar. Það var vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna í því máli