133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[11:27]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 520, 432. máli, en þar er um að ræða breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem lýtur að því að kveða með skýrum hætti á um að það teljist veiðar í atvinnuskyni en ekki tómstundaveiðar þegar eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til fiskveiða. Það er meginregla samkvæmt íslenskum fiskveiðilögum að bátar þurfa að hafa nægjanlegan kvóta fyrir þeim afla sem þeir fá í kvótabundnum tegundum. Einu undantekningarnar frá þeirri meginreglu eru þær að heimilt er að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu og þá er sjávarútvegsráðherra enn fremur heimilt að ákveða að afli sem fæst á tilteknum opinberum sjóstangveiðimótum teljist ekki til aflamarks enda sé hann einungis fénýttur til að standa straum af kostnaði við mótshaldið. Nokkuð er um að aðilar sem eiga eða gera út báta bjóði þeim sem þess óska og gjald greiða fyrir að fara með bátunum í sjóferðir, m.a. til að renna fyrir fisk eða þá að nýta bátana til fiskveiða, jafnvel án þess að fulltrúi útgerðar sé um borð. Áhugi á slíkum fiskveiðum virðist fara vaxandi, einkum meðal erlendra sportveiðimanna og er ástæða til að ætla og sannarlega vona að atvinnustarfsemi af þessum toga aukist umtalsvert á komandi árum.

Stundum eru þessir bátar einungis nýttir til fiskveiða en í öðrum tilvikum eru veiðar aðeins einn þáttur í þeirri afþreyingu sem boðið er upp á. Hvað sem því líður eru umræddir bátar nýttir í atvinnuskyni og eru fiskveiðar þáttur í þeirri nýtingu. Það er þess vegna eðlilegt og sanngjarnt að sömu grundvallarreglur gildi um þessa báta og eiga við um aðra báta sem eru nýttir í atvinnuskyni til fiskveiða, einkum hvað varðar þá kröfu að þeir hafi nægjanlegan kvóta fyrir kvótabundnum afla. Að sjálfsögðu fæst mismikill afli við veiðar umræddra báta en þar sem það eru yfirleitt ferðamenn, erlendir og innlendir, sem veiðarnar stunda eru þeir sjaldnast í góðri aðstöðu til að taka aflann með sér og neyta hans sjálfir. Því getur verið heppilegt og hagkvæmt fyrir þá, en þó sérstaklega fyrir hlutaðeigandi útgerð, að geta selt aflann eða fénýtt hann á annan hátt.

Ef þetta frumvarp verður að lögum þurfa allir bátar sem eru nýttir með umræddum hætti að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni og nægjanlegar aflaheimildir fyrir kvótabundnum afla. Heimilt verður að selja afla sem fæst við þessar veiðar en afla sem fæst við tómstundaveiðar er hins vegar óheimilt að selja. Gert er ráð fyrir að almennar reglur sem gilda um veiðar í atvinnuskyni eigi við um veiðar umræddra báta en þó er nauðsynlegt að ráðherra verði heimilt að setja sérstakar reglur um tiltekin atriði, svo sem varðandi skyldur skipstjóra og skýrsluskil. Það helgast af því að þær aðferðir sem eru hagkvæmastar og almennt eru viðhafðar við útgerð þessara báta og menn þekkja geta verið nokkuð frábrugðnar því sem tíðkast við rekstur annarra atvinnubáta og það er eðlilegt að tekið verði tillit til þess eftir því sem unnt er og lög leyfa.

Virðulegi forseti. Þessu frumvarpi er ætlað að taka af allan vafa um að það teljist vera veiðar í atvinnuskyni í skilningi fiskveiðilaga þegar eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til fiskveiða. Það þýðir eins og fyrr sagði að sömu grundvallarreglur gilda um veiðar þessara báta og annarra báta sem eru nýttir í atvinnuskyni til fiskveiða. Með því er nauðsynlegs jafnræðis gætt og jafnframt skýrt hvaða kröfur eru gerðar að þessu leyti til þeirra sem gera umrædda báta út eða hyggjast hefja slíkan atvinnurekstur. Þetta er mikilvægt til þess að þeir sem í hlut eiga geti lagað sig að þeim kröfum og tekið tillit til þeirra við rekstur báta sinna og í þeim áætlunum sem þeir gera í sambandi við hann. Ég vonast því til að frumvarpið fái hér framgang og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og umfjöllunar hjá hv. sjávarútvegsnefnd.