133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið.

19. mál
[19:09]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög góður punktur sem hv. þingmaður nefndi. Hvar á upphafspunktur þessa máls að vera? Hvar á valdið að liggja? Hver á að taka ákvörðun um hluti eins og tímasetningu þessara framkvæmda eða hvort í þær er ráðist á annað borð?

Ríkisstjórnin reynir vísa af sér ábyrgð út í bæ. Hæstv. iðnaðarráðherra boðaði afturvirka stefnubreytingu eins og frægt varð og aðhlátursefni um allt land í sumar, að síðan 2003 eða 2004 hefði ekki verið rekin nein virk stóriðjustefna heldur væri það í valdi sveitarfélaga og orkufyrirtækja. En þannig er það ekki eins og m.a. sérfræðingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar benda á er þetta leyfisskyld starfsemi og þarf að útvega orku til hennar og það gera opinber fyrirtæki.

Veruleikinn er hins vegar sá að það vald sem formlega séð er í höndum stjórnvalda, var í öllu falli a.m.k. til 2004 og er enn, hefur bara verið framselt út í bæ, einfaldlega vegna þess að álfyrirtækin hafa komið og pantað sér bæði stað og tíma. Menn fara jafnvel til útlanda til þess að fá fréttir af því hvar þau vilji vera. Voru ekki ráðamenn þjóðarinnar með iðnaðarráðherra í broddi fylkingar kallaðir til New York til þess að taka við þeim erkibiskupsboðskap hvar Alcoa vildi bera niður?

Tímasetningin er líka í valdi stórfyrirtækjanna. Gallinn er sá að stjórnvöld hafa ekki sett neina fyrirvara inn í ferlið. Auðvitað ættu að vera fyrirvarar í ferlinu sem segðu: Jú, þið megið undirbúa þetta og rannsaka ef mönnum sýnist svo en við verðum að áskilja okkur rétt til að meta, ef eða þegar þar að kemur, hvort aðstæður séu fyrir hendi í hagkerfinu til að hleypa fjárfestingum af stað. Allt annað er galskapur, t.d. að reyna að skilja ástandið í hagkerfinu ef 430 milljarða fjárfestingu yrði hleypt af stað á einu til tveimur missirum. Lokið mun einfaldlega fjúka af pottinum. Það er erfitt að sjá annað. (Forseti hringir.) Stjórnvöld engan veginn staðið nógu vel að þessum málum.