133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[17:44]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Umræðan fer eðlilega víða enda snertir þetta utanríkismálin á breiðum grunni og það má segja að íslenska friðargæslan standi á merkum tímamótum þegar þetta frumvarp er lagt fram. Hún hefur starfað í u.þ.b. fimm ár í þeirri mynd sem við þekkjum hana í dag þó að hún hafi verið starfandi frá 1994 og að á þeim tíma hafi um 100 Íslendingar unnið á erlendum vettvangi sem friðargæsluliðar.

Þetta frumvarp er afrakstur vinnu hæstv. utanríkisráðherra sem hún ræddi í hv. utanríkismálanefnd núna í október, um miðjan október að mig minnir, þar sem við áttum umræður um friðargæsluna og hvert hún stefndi. Það sem mér finnst kannski mikilvægast í þessu er að það náist þessi breiða sátt um friðargæsluna sem almennt hefur verið en þarf kannski að nást enn frekar. Ég held að það frumvarp sem liggur hér fyrir þinginu sé til þess fallið að menn nái enn breiðari sátt.

Í frumvarpinu er sérstaklega kveðið á um þetta víðtæka samráð og samvinnu með utanríkismálanefnd um áherslur í vali á verkefnum og ég held að það sé mjög til góðs. Reyndar frá því að ég kom inn í utanríkismálanefnd í haust, hef svo sem ekki lengri reynslu en það, hefur mér fundist núverandi hæstv. utanríkisráðherra leggja sig fram við mikið samráð og samvinnu við nefndina. Ég held að það sé mjög jákvætt.

Þetta frumvarp er efnismikið og ég ætla ekki að fara yfir hverja grein en í nefndinni sjálfri munum við að sjálfsögðu fara ítarlega yfir það, fá til okkar gesti, óska eftir umsögnum þar til bærra aðila og eiga væntanlega samræður innan nefndarinnar og við gesti hennar um efni frumvarpsins. Ég vildi bara í þessum umræðum hér, herra forseti, nota tækifærið og fagna sérstaklega þessum breyttu áherslum núverandi hæstv. utanríkisráðherra sem hefur verið að mýkja ásýnd friðargæslunnar með verkefnavali sínu og auka starfsemi hennar á borgaralega sviðinu.

Eins og fram hefur komið í máli ráðherra er áherslunni sérstaklega beint að fjórum sviðum, þ.e. löggæslu og réttarfari, flugmálum og flugmálastjórn, fjölmiðlum og upplýsingamálum og heilbrigðismálum. Það var einmitt í anda slíkra verkefna eins og kynnt voru á haustmánuðum þar sem íslensk ljósmóðir og íslenskur hjúkrunarfræðingur fóru til Afganistans og stóðu fyrir fæðingarnámskeiði sem maður sér fyrir sér sem áframhaldandi verkefni. Ég fagna því mjög. Við höfum á Íslandi á að skipa miklu fagfólki á ýmsum sviðum sem við eigum að notfæra okkur að getur sótt út á þessum sviðum eins og öðrum. Útrásin getur verið af ýmsum toga og við eigum að nýta okkur þetta vel menntaða og reynslumikla fagfólk á öllum sviðum og þar með höfum við margt að leggja til á vettvangi alþjóðasamstarfsins.

Við berum heilmikla ábyrgð í samfélagi þjóðanna og í ljósi þeirrar almennu velferðar sem við höfum skapað okkur á Íslandi verðum við að taka þátt í alþjóðasamstarfi á þeim grunni og auðvitað skapar það okkur líka sérstöðu að við erum herlaust land og viljum vera það áfram. Á þeim grunni hljótum við að reka þessa friðargæslu.

Ég fagna því, herra forseti, að fram sé komið þetta frumvarp til laga sem við ræðum hér og tökum nú til efnislegrar og þinglegrar meðferðar og ég heiti því að við í hv. utanríkismálanefnd munum leggja okkar af mörkum til að afgreiða þetta frumvarp eins fljótt og hægt er.