siglingavernd.
Frú forseti. Það er svo sem engu við þetta að bæta. Sem betur fer er ekki um beint pólitískt deiluefni að ræða hvað skuli gera heldur hvenær og hver eigi að gera það.
Eins og komið hefur fram í umræðum á þinginu er mjög ámælisvert hvernig við höfum séð málið þróast gagnvart Wilson Muuga. Það var sannarlega flækjuþáttur í málinu. Eins og hv. þingmaður nefndi áðan getur þetta heyrt undir þrjú ráðuneyti, samgönguráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Þess vegna geta stundum komið upp svona mál.
Hv. þingmaður tók einmitt dæmi sem ég ræddi lítillega um. Það var um Víkartind þegar skipstjóri Víkartinds neitaði að taka við, eins og hv. þingmaður sagði, tauginni frá Landhelgisgæslunni og ætlaði að freista þess að þeir sem voru niðri í vél mundu koma vélinni í gang. En það tókst ekki og því fór sem fór. Þarna hefði auðvitað þurft að vera heimild í lögum til að grípa betur inn í. Vonandi verða breytingar á næstunni.
En í þessum stuttu andsvörum okkar hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, formanns samgöngunefndar — hvað segir þá hinn pólitíski samgönguráðherra yfir þessum málum og yfir því sem við höfum verið að sjá bæði gagnvart Wilson Muuga og siglingaleiðunum og þessari glæfrasiglingu skipa sem eru í kringum okkur og við erum að lesa um? Og því sem hv. þingmaður nefndi líka, ef vil vill eru allir að bíða hver eftir öðrum, Siglingastofnun og Landhelgisgæslan. Hvað er rætt um frá hendi hæstv. samgönguráðherra? Megum við eiga von á því að þetta komi inn til Alþingis áður en þingið fer heim? Eða er það kannski þannig, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að hv. samgöngunefnd verður að taka þetta upp?