133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:38]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg fallist á það með hv. þingmanni að það var mikill hraði á þessu máli í gegnum þingið og í málsmeðferðinni í félagsmálanefnd. En mér finnst það ekki réttlæta að hv. þingmaður standi hér og segi að við í Samfylkingunni og Vinstri grænum höfum brugðist í þessu efni. Það er ekki okkar hvenær þetta mál var lagt fram og á hvaða hraða ríkisstjórnin knúði það í gegn. Við vorum fyrst og fremst með ábendingar um það sem við töldum að betur mætti fara eins og ég sagði. Frjálslyndir segja ávallt: „Við vildum þessa frestun í tvö ár.“ En það er grundvallaratriði í þessu máli að miðað við atvinnuástandið er ég sannfærð um að útlendingar hefðu komið hingað í jafnmiklum mæli inn á vinnumarkaðinn og þá í gegnum starfsmannaleigurnar, sem er miklu lakari kostur. Nú eru gerðir beinir samningar milli atvinnurekanda og launamanns en þá hefðu samningar og undirboð verið falin í gegnum starfsmannaleigurnar. Það er mergurinn málsins.

Til að halda því til haga sem var grundvallaratriði í okkar huga þegar lögin um starfsmannaleigurnar voru sett — og það var það sem verkalýðshreyfingin var að gagnrýna um land allt — vil ég minna á að við vildum fá inn ákvæði um að notendafyrirtæki beri ábyrgð á því að allir sem hjá þeim starfa njóti launa og annarra starfskjara þrátt fyrir að starfssamband viðkomandi starfsmanns og notendafyrirtækis sé byggt á milligöngu starfsmannaleigu. Það var grundvallaratriði. Um það fluttum við í Samfylkingunni tillögu og hún var felld. Við höfum því svo sannarlega í allri meðferð málsins í gegnum þingið reynt að reisa þær girðingar sem nauðsynlegar eru til þess að aðlögun útlendinga á íslenskum vinnumarkaði geti verið með sem bestum hætti og við lærum af reynslu annarra þjóða þar sem þau mál hafa farið miður.