133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessar áhyggjur hv. þingmanns í lokin. Við erum auðvitað búin að fá mikinn fjölda fólks inn í landið og það mun reyna á velferðarkerfi okkar. Það mun reyna á Atvinnuleysistryggingasjóð o.s.frv. ef atvinna dregst snögglega saman hér á landi. Það eru því margar hliðar á þessu máli.

Hitt er alveg ljóst, hæstv. forseti, að það sem við vorum einfaldlega að ræða í vor, í Frjálslynda flokknum, var hvort við ættum að nota okkur þennan fyrirvara til 2009. Við vorum ekki að leggja til „lok, lok og læs“ á það að fólk kæmi inn í landið. Við lögðum eingöngu til að við hefðum sömu yfirsýn og okkur sýndist Vinnumálastofnun vera farin að hafa, því að a.m.k. eins og ég sá á upplýsingum frá Vinnumálastofnun, þó að ég sé ekki með þær tölur fyrir framan mig, var afgreiðsla á fólki af erlendu bergi brotnu hröð inn í landið fyrir 1. maí, þó að það hafi kannski orðið öðruvísi og breyst meira eftir 1. maí.