133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

rammaáætlun um náttúruvernd.

18. mál
[17:28]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vona að umræðan um gerð rammaáætlunar um náttúruvernd verði upphaf að umræðu sem standi fram að kosningum um þau málefni sem hér er verið að ræða einfaldlega vegna þess að það er fyrir löngu kominn tími til þess að stjórnmálamenn taki ábyrgð á gerðum sínum hvað varðar náttúruvernd og nýtingu náttúrugæða í landinu.

Segja má að stefnan sem hafi ríkt hér hafi verið: Fyrstur kemur, fyrstur fær, þegar um nýtingu á auðlindum í okkar landi hefur verið að ræða. Ákvarðanatakan hefur meira og minna farið fram sem afleiðing af einhverjum hugmyndum um nýtingu. Það hefur ekki legið fyrir áætlun eins og hér er lagt til, því miður, og ekki bara það, heldur hafa stjórnvöld vísvitandi viðhaldið þessu fyrirkomulagi. Það hefur kostað töluverð átök í Alþingi að fá stjórnvöld til að reyna að gera einhverja bragarbót t.d. á því hvernig valið er á milli aðila sem sækjast eftir því að nýta auðlindirnar. Það kemur til umræðu síðar það þingmál sem varð til vegna nefndar sem Samfylkingin hafði fram á síðasta þingi að yrði stofnuð og var kölluð auðlindanefnd. Ég ætla ekki að ræða það mál hér. En hér er tillaga sem setur okkur það verkefni að gera áætlun um það hvað við viljum friða. Hún þarf ekki að taka yfir allt því að við getum auðvitað að hluta til notað biðvernd. Við þurfum ekki að rannsaka til hlítar öll landsvæði ef við friðum þau með þannig hætti að ekkert megi gera þar þangað til rannsóknir hafa farið fram. Þetta skiptir mjög miklu máli vegna þess að margt af því sem þarf að rannsaka mun auðvitað taka langan tíma.

Hin óábyrgu stjórnvöld sem hafa verið hér við völd á undanförnum árum virðast daufheyrast enn við þeim aðvörunum sem þau hafa fengið. Ég verð að segja að það er leiðinlegt að þurfa að ræða málin undir formerkjunum hér. Iðnaðarráðherra sem tók við formennsku í Framsóknarflokknum kynnti það á síðasta vori að stóriðjustefnunni væri í raun lokið, en hvernig lauk henni þá? Með því að gefa stóriðjuna frjálsa. Það er á valdi Alcoa, Alcan eða Norðuráls hvort ráðist verður í stórframkvæmdir á sviði framleiðslu á áli. Nú standa Hafnfirðingar frammi fyrir því að kjósa um það um leið og þeir ákveða skipulag sitt hvort það verði af framkvæmdinni. Hvar liggur ábyrgðin á því að stefnt skuli vera að því að fara í framkvæmdina? Hún liggur ekki hjá Hafnfirðingum. Það er ekki hægt að kasta þeirri ábyrgð til sveitarfélaga í landinu að taka ákvörðun um það t.d. hvað gera eigi við kvótann sem Íslendingar fengu í sinn hlut í loftslagsmálum, þegar maður stendur líka frammi fyrir því að stjórnvöld hafa engar reglur sett um það hvernig úthluta beri þeim kvótum. Þar af leiðandi eru fyrirtækin sem stefna að því að fara í meiri álframleiðslu í þeirri stöðu að þau gætu mjög líklega, og iðnaðurinn í landinu hefur lýst því yfir á fundi sem ég var áheyrandi að í fyrra að þeir mundu eiga bótarétt á hendur ríkisvaldinu ef slíkar reglur yrðu settar á framkvæmdir sem menn hefðu tekið ákvarðanir um að fara í.

Ég vil endilega koma á framfæri leiðréttingu vegna umfjöllunar í Ríkisútvarpinu á laugardaginn var þar sem umhverfisráðherra var í viðtali. Í framhaldi af því var skýr yfirlýsing frá fréttamanninum sem fjallaði um málið, að ef stóriðjan færi að framleiða meira en íslenska ákvæðinu næmi væri það á ábyrgð stóriðjufyrirtækjanna. Það er ekki þannig. Þetta er frjálst fyrir þá og íslenska ríkið ber alla ábyrgð á frelsinu. Þó að frelsið sé yndislegt þá er það ekki með þessum hætti. Þetta er óábyrg stefna. Þetta er stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og ég tel að það sé kominn tími til að menn fari að svara fyrir þá stefnu. Hæstv. forsætisráðherra hefur neitað að fara upp í ræðustól til að útskýra sína stefnu hvað þetta varðar. Iðnaðarráðherra heldur því fram sem ég hef verið að hafa eftir honum alveg hiklaust að stóriðjustefnunni sé lokið. En henni hefur lokið með þeim hætti að hún er gefin frjáls.

Ég verð að segja alveg eins og er að það er löngu kominn tími til að menn taki á þessu með ábyrgum hætti eins og hér er lagt til. Hér er lagt til að tekið verði á þessu með heildstæðum hætti. Annars vegar verði áætlunin sett af stað sem hér er til umræðu og hins vegar verði gerðar ráðstafanir sem færa ábyrgðina til Alþingis af nýjum ákvörðunum í stóriðjumálum. Auðvitað er ekki hægt að komast alla leið í málinu núna eftir að stjórnvöld hafa stefnt í slíkt óefni sem nú er uppi öðruvísi en að gera hlutina eins og við leggjum til. En við fáum ekki einu sinni viðbrögð frá hv. Alþingi frá þeim sem bera ábyrgð á þeirri stefnu sem er uppi. Þeir sitja ekki í salnum. Þeir hafa engan áhuga á að útskýra hvað sé fram undan í þessum málum.

Ég held að þjóðin þurfi að fara að taka býsna vel eftir þessu einfaldlega vegna þess að ábyrgðarleysið sem er uppi í þessum málum er ekki stefnuleysi, það er stefna. Það er stefna sem hefur verið rekin fram á þennan dag og ekkert sem bendir til þess að menn ætli að beygja af þeirri leið fyrr en búið verður að byggja þau álver sem eru á teikniborðinu.