133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[18:54]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það sem hv. þingmaður sagði einmitt vera rökstuðningur fyrir því að menn skoði allar leiðir um hálendið og geri sér grein fyrir því að hverju skuli stefnt í framtíðinni. Annað er óráð og það á ekki að vera háttur þingmanna að beygja sig fyrir niðurstöðum einhverra sem vilja ráðast í framkvæmdir hafi þeir ekki gert fullnægjandi athugun á því sem um er að ræða. Ég tel að það hafi alls ekki verið gert en hins vegar að miklar líkur séu á að skynsamlegt sé að vinna að því að gera veginn um Kjöl greiðfæran. Það er ekki búið að svara spurningunni um hvort menn vilji í raun að hann verði þungaflutningavegur eða ekki. Það verður auðvitað að liggja klárt fyrir. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þeir sem hafa áhuga á að byggja þann veg upp, þeir einkaaðilar sem um er að ræða, vilji að þungaflutningar fari um þann veg.

Svo eru margar leiðir eins og hv. þingmaður nefndi sem væri ástæða til að gera betri vegi um. Þar nefni ég t.d. veginn um Uxahryggi sem tengir Suðurland og Vesturland og styttir mikið leiðina þar á milli. Áhugi Sunnlendinga á að koma þeim vegi í betra horf hefur verið undarlega lítill en sá vegur gefur ferðamönnum gríðarlega möguleika á að taka hring um Gullfoss- og Geysissvæðið og Borgarfjörðinn líka. Þetta þarf allt að skoða en samt að gera með þeim hætti að við getum verið viss um að finna réttu niðurstöðurnar.