133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

afnot af Ráðherrabústaðnum.

488. mál
[12:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason rifjar það upp, það mun hafa verið fyrir 18 árum, að haldið hafi verið boð í Ráðherrabústaðnum. Já, það mun vera rétt hjá honum. Ég var þá að vísu ekki í starfi hjá ráðuneyti öfugt við það sem hv. þingmaður heldur fram og þarf að bæta upplýsingaþjónustu Framsóknarflokksins mjög í þessu máli.

Ráðherra hefur væntanlega pantað bústaðinn það kvöld og gekkst við því öfugt við þá ráðherra sem hér eru til umræðu, hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra. (Gripið fram í: Hver borgaði?) Ráðherra hélt þá veislu og hún er borguð á vegum ráðherra væntanlega, en spyrjið ríkisendurskoðanda um það.

Hér er seilst nokkuð langt. Hér er seilst aftur í Lúðvík Jósepsson og Ólaf Ragnar Grímsson. Munurinn á þessu máli og hinu er einfaldlega þessi: Þingflokkur Framsóknarflokksins hélt þetta boð, eða hvað? Það ætti kannski að rannsaka þá reikninga. Það er landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, og viðskiptaráðherra, sem er ekki einu sinni í þingflokknum því hann er ekki á þingi, sem pantaði þetta í nafni þingflokksins. Framsóknarflokkurinn er farinn að haga sér eins og fimmtánda ráðuneytið.

Ég skil vel feimni hæstv. forsætisráðherra við að gera það sem honum ber, að taka fram fyrir hendurnar á Framsóknarflokknum í málinu. (Gripið fram í.)

(Forseti (RG): Viljið þið gefa þingmanni hljóð.)

Það er auðvitað furðulegt og léleg skýring á því að þingflokkur sem hefur hálfa ríkisstjórn innanborðs hafi meira leyfi en aðrir þingflokkar til að halda fundi á opinberum stöðum þar sem forsætisráðherra ber að vernda og varðveita.

Ömurlegast er þó þetta hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni sem ber ábyrgð á málinu, er formaður (Forseti hringir.) þess þingflokks sem lítur á sjálfan sig sem fimmtánda ráðuneytið, að sönnu er ömurlegast hjá honum að hann þurfi að teygja sig (Forseti hringir.) 18 ár aftur í tímann og hafa ekki einu sinni aflað sér (Forseti hringir.) almennilegra upplýsinga um málið. Enda er þingmaðurinn á förum.