133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilsufar erlendra ríkisborgara.

445. mál
[15:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegur forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra telur að ekki sé nein hætta á ferðum en ég held samt sem áður að full ástæða sé til þess að við höldum vöku okkar. Af einhverjum ástæðum hefur Helgi Hróðmarsson skrifað grein í SÍBS-blaðið, í 1. tbl. í janúar 2007, grein sem heitir nákvæmlega: „Berklarnir, höldum vöku okkar.“ Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að ná sér í þetta blað og lesa þá grein.

Hæstv. heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn minni að nokkru leyti en ég heyrði ekki betur en svarið snerist að miklu leyti um þá sem sæktu hér um dvalar- og atvinnuleyfi. Þá spyr ég aftur: Hvað með þá sem hingað koma til að mynda frá aðildarlöndum Evrópusambandsins, löndum sem gengu í Evrópusambandið árið 2004? Mörg þeirra landa eru í Austur-Evrópu þar sem við vitum að aukinn fjöldi tilfella hefur komið upp af þessum sjúkdómi og það hafa komið upp tilfelli fjölónæmra afbrigða af berklum. Hvað með þá sem koma hingað núna frá þessum löndum eftir að frjáls för launafólks var heimiluð? Er eitthvert skipulegt starf í gangi hvað þá einstaklinga varðar sem koma hingað til lands? Mér þætti vænt um að fá nánari útlistanir á því.

Síðan vona ég, virðulegi forseti, að fyrirspurn mín muni þó a.m.k. — og þá er til einhvers unnið — skerpa á árvekni heilbrigðisyfirvalda í þessum málum því ég held að það sé mjög mikilvægt að við höldum vöku okkar eins og Helgi Hróðmarsson bendir á í grein sinni, að við sofnum ekki á verðinum. Við höfum náð mikilsverðum árangri í heilbrigðismálum á Íslandi, við höfum náð mikilsverðum árangri í baráttu okkar við erfiða og hættulega sjúkdóma og að sjálfsögðu viljum við halda þeirri stöðu núna og (Forseti hringir.) ef þessi fyrirspurn mín leiðir til þess þá er náttúrlega til einhvers unnið.