133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

samningar um rannsóknafé til háskóla.

493. mál
[18:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hinn 11. janúar síðastliðinn gerðist sá gleðilegi atburður í Háskóla Íslands að hæstv. menntamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands undirrituðu samning um kennslu og rannsóknir við háskólann fyrir árabilið 2007–2011. Í þeim samningi er heitið verulega auknu fjármagni til rannsókna, einkum við skólann, sérstaklega á árabilinu 2008–2011.

Framlög til skólans munu hafa hækkað um 300 millj. kr. á yfirstandandi ári í tengslum við þennan samning eða sem undanfari samningsins, en eiga síðan að hækka um 640 millj. kr. árlega á tímabilinu 2008–2011 og hafi þá hækkað um tæpa 3 milljarða í lok samningstímans.

Þetta er að sjálfsögðu eðlilega mikið fagnaðarefni fyrir háskólann og háskólastigið í landinu þó svo að hitt sé rétt að hafa í huga að góðverkin eiga aðallega að koma til framkvæmda á næsta kjörtímabili. Það kemur í hlut þeirra sem þurfa að koma saman fjárlögum á Alþingi á komandi árum að efna samninginn að sjálfsögðu, en engu að síður er það langþráð að betur sé búið að háskólanum í þessum efnum.

Ég hef þess vegna leyft mér að spyrja hvort ekki megi vænta þess, og í raun meira en að vænta þess, hvort ekki megi algerlega treysta því að aðrir opinberir háskólar, einkum þá Háskólinn á Akureyri, og vísa ég í því sambandi til áforma ráðherra um að sameina Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, sem munu þá renna saman inn í þennan samning. En þá stendur eftir einn opinber háskóli, Háskólinn á Akureyri, og við hljótum að treysta því að hann fái sambærilega meðferð.

Ekki er síður brýnt að Háskólinn á Akureyri búi við góð kjör að þessu leyti, vegna þess að hann er staðsettur þar sem raun ber vitni og þarf á öllum sínum styrk að halda til þess að vera samkeppnisfær og geta boðið hæfum starfsmönnum sams konar möguleika hvað varðar aðgang að rannsóknafé og faglegan metnað.

Staða mála er þannig við Háskólann á Akureyri að hann hefur vissulega fengið nokkra viðbótarfjármuni, bæði á fjáraukalögum og á fjárlögum yfirstandandi árs sem að hluta til eru eyrnamerktir rannsóknum. En það er enginn langtímasamningur í gildi um rannsóknir sambærilegur þeim sem nú hafa verið gerður við Háskóla Íslands, og í raun eingöngu viðauki sem tekur til þessa árs.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. menntamálaráðherra einfaldrar spurningar og vonast eftir góðu svari: Er þess að vænta að Háskólinn á Akureyri fái á næstunni sams konar samning um aukið fé til rannsókna og Háskóli Íslands fékk á dögunum?