133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

útvíkkun fríverslunarsamnings Færeyja og Íslands.

83. mál
[18:27]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Þessi tillaga er flutt á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins frá í sumar og að henni stöndum við sem í Vestnorræna ráðinu sitjum, hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Ályktun Vestnorræna ráðsins er svohljóðandi:

Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að ræða möguleikann á því að löndin geri með sér samkomulag um að útvíkka fríverslunarsamninginn sem Færeyjar og Ísland hafa gert með sér (Hoyvíkur-samninginn).

Löng hefð er fyrir nánu og víðtæku samstarfi vestnorrænna þjóða. Vestur-Norðurlönd ná yfir gríðarstórt land og hafsvæði, en þjóðirnar sem þær byggja eru fámennar. Fríverslunarsvæði eyjanna í Norður-Atlantshafi kæmi sér mjög vel fyrir viðkomandi lönd og þar með fyrir íbúa þeirra. Fríverslunarsamningurinn sem Færeyingar og Íslendingar hafa gert með sér tryggir ekki einungis frjálsa vöruverslun milli landanna, heldur veitir hann borgurum landanna næstum sömu réttindi í báðum löndunum á sviðum eins og heilbrigðisþjónustu, menntun, menningu og þátttöku í sveitarstjórnarkosningum. Markmiðið með samningnum er að fjarlægja eftir því sem kostur er þær landamærahindranir sem nú eru milli þjóðanna. Það er einkum mikilvægt fyrir smáþjóðir eins og vestnorrænar þjóðir að standa saman og styðja hver aðra, jafnframt því að hafa árangursríkt og gott samstarf. Fríverslunarsamningurinn getur átt þátt í því. Hann mun stuðla að því að hið nána og jákvæða samstarf sem þessi lönd hafa átt öldum saman haldi áfram. Jafnframt munu vestnorrænir fríverslunarsamningar að líkindum hafa í för með sér að Færeyingar og Grænlendingar verði ekki jafnháðir Dönum fjárhagslega og nú.

Vestnorræna ráðið álítur afar brýnt að ríkisstjórnir landanna athugi samninginn vel og ræði um leið möguleikana á að Grænland geti átt aðild að honum. Útvíkkun fríverslunarsamningsins mun stækka talsvert heimamarkað landanna þriggja og hafa í för með sér enn fleiri viðskipti og atvinnutækifæri en nú er. Fríverslunarsamningurinn sem nær til allra Vestur-Norðurlanda mun auk þess treysta enn betur vináttutengsl okkar. Með Hoyvíkursamningnum hefur í raun orðið til færeyskt-íslenskt efnahagssvæði. Vestnorræna ráðið telur afar brýnt að Grænland verði einnig aðili að Hoyvíkursamningnum og þannig verði til vestnorrænt efnahagssvæði. Í Hoyvíkursamningnum er grein sem gerir ráð fyrir því að fleiri aðilar konungsveldisins Danmerkur geti fengið hlutdeild í samningnum. Vestnorræna ráðið hvetur ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda til að kanna möguleikana á því að notfæra sér þessa grein og hefja eins fljótt og hægt er viðræður um möguleikana á aðild Grænlands að samningnum.

Ég legg til, frú forseti, að málinu verði vísað til utanríkismálanefndar.