133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

sameiginleg stefna í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd.

84. mál
[18:34]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér ákaflega mikilvægt mál, þ.e. samstarf Vestnorrænu ríkjanna á sviði ferðamála. Við getum unnið saman þótt við séum líka í vissri samkeppni. Við getum miðlað hvert öðru, t.d. í menntamálum. Það var eitt af því sem var rætt á ráðstefnunni í Maniitsoq í Grænlandi í sumar sem leið, hvernig hægt væri að efla menntun í ferðaþjónustu í þessum þremur löndum.

Nú vill svo til að við Íslendingar höfum upp á að bjóða allgóða menntunarmöguleika á þessu sviði. Ákveðið var að stefna að því þá strax að koma á samvinnu milli landanna um menntun í ferðamálum og mér er kunnugt um að það starf er hafið nú þegar. Er ákaflega ánægjulegt að vita til þess.

Það er mjög mikilvægt að þessi lönd standi þétt saman að því að skipuleggja ákveðna þætti í ferðamálunum og reyna að koma á úrbótum á vissum sviðum. Má þar nefna samgöngumálin en ekki hefur gengið nógu vel að greiða leiðir milli landanna, m.a., hygg ég, fyrir afskipti Dana. Það er ekki einungis mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna heldur líka fyrir það sem var til umræðu hér á undan, verslun og viðskipti, t.d. þjónustu við sjúka og aðra — þjónustu sem við getum mjög vel veitt hér á Íslandi og jafnframt í Færeyjum.

Við erum því að tala um ákaflega mikilvægt mál fyrir löndin öll. Ég held að löndin þrjú muni öll hagnast á samstarfi.