133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[18:35]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða af því að þingmaðurinn kom inn á það að spilla náttúru. Okkur er oftast efst í huga okkar eigin náttúra þegar við ræðum þessi mál. Það er mjög algengt að stjórnarliðar tali um að umdeildar virkjanir til að skaffa orku til að vinna ál séu lausn en ekki vandamál af því að okkar orka sé svo hrein en t.d. orka framleidd með kolum sé svo spillandi úti í heimi að við eigum að horfa á þetta hnattrænt. Stundum þegar ég hlusta á þessa þingmenn held ég að þeim finnist það bara í lagi að í málflutningi þeirra felist að það megi virkja hverja einustu sprænu og allan jarðvarma sem finnst hér á landi af því að þá séum við að afstýra því að einhvers staðar úti í heimi verði hugsanlega framleidd orka fyrir álver með kolaorku. Reyndar væri hægt að bæta því við að með sama hætti gæti einhver önnur þjóð farið inn á mjög viðkvæmt, umdeilt svæði til að vinna gas — þó að öllum öðrum þjóðum fyndist að þetta ætti ekki að gera — af því að gasið valdi minni útblæstri en t.d. kol með alveg sömu rökum.

Við tölum aldrei um það hér hvaða náttúruspjöll verða við vinnslu báxíts. Ég minnist þess ekki í allri þeirri umræðu sem ég hef hlustað á hér á Alþingi um þessi mál og með náttúruna að leiðarljósi að við tölum um þetta. Nú kemur þessi ágæta frásögn frá Jamaíku. Ég þakka fyrir þessa frásögn hér og upplýsingar og spyr: Veit þingmaðurinn í hvaða fleiri löndum er verið að vinna þetta efni og hve miklum skaða það veldur? Það er bara hollt fyrir okkur að taka þetta með í umræðuna um málið.