133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

þjóðarátak gegn lélegri umgengni um landið.

538. mál
[14:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, hæstv. umhverfisráðherra nýtir tíma sinn vel í að telja upp það sem gert hefur verið á vettvangi umhverfisráðuneytisins á síðustu missirum hvað það varðar að koma þessum málum í viðunandi horf. Vissulega er það rétt að svæðisáætlanir sveitarfélaganna eru í vinnslu og eiga að sjálfsögðu eftir að skila einhverju. Við sjáum þess einnig stað að úrvinnslugjald á bifreiðar er farið að skila árangri og tel ég að sveitarfélögin séu eftir fremsta megni að vinna ágætt starf í þessum efnum.

En hvar er þjóðarátak Framsóknarflokksins, þjóðarátakið sem samþykkt var á landsfundi flokksins 2005 að ætti að fara fram, þjóðarátakið sem átti að skera upp herör gegn lélegri umgengni um landið og uppsöfnuðum úrgangi þar sem hann ætti ekki heima? Framsóknarflokkurinn hefur ekki látið fara fram neitt sérstakt þjóðarátak í þessum efnum. Hann hefur ekki sinnt því hlutverki sem hann sjálfur setti á sínar eigin herðar að því marki sem mér fyndist að hann hefði átt að gera til þess að geta haldið því hér fram kinnroðalaust að stefna hans í umhverfismálum sé metnaðarfull.

Margt hefur auðvitað verið vel gert og það er tímanna tákn að nú eru stjórnmálaflokkarnir óðum að átta sig á því að það þýðir ekki að skila auðu í umhverfismálum, hvorki í hinu smáa né í hinu stóra, hvorki í loftslagsmálunum né heldur í málefnum er varða það að fegra og snyrta umhverfi okkar.

Hæstv. umhverfisráðherra ætti auðvitað að ganga fram fyrir skjöldu, efna til almennilegs þjóðarátaks þar sem unnið yrði hönd í hönd með frjálsum félagasamtökum og sveitarfélögum á sviði umhverfis- og náttúruverndar. Það þarf líka að sjá til þess að sveitarfélögin hafi meira (Forseti hringir.) bolmagn til að framkvæma þessi mál en raun ber vitni. Þá hefði hæstv. ráðherra sterkan her til að sinna þessum málum í félagi við sig og Framsóknarflokkinn og Vinstri græna.