133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

laun sjómanna og lífskjör á landsbyggðinni.

448. mál
[14:34]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að fjöldamargt hefur áhrif á launin. Heildarafli hvers árs hefur t.d. mikil áhrif. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að í botnfiskveiðunum er þorskurinn sennilega gefinn upp sem 40% af verðmætunum. Heildarafli af þorski hefur verið mjög lítill á undanförnum árum miðað við það sem áður var. Sá afli er kannski um það bil helmingur þess sem langtímaviðmið í þorskveiðum hefur gefið okkur til margra ára, a.m.k. fyrir daga kvótakerfis.

Síðan koma til kvótaverðið og kvótaleigan. Þetta spilar inn í kjör sjómanna því einhvers staðar eru þessir peningar teknir. Þetta er ekki starf sem gufar bara upp eða kemur engum við. Verðið lendir á sjómönnum víðast hvar. Ég hef stundum sagt að arðsamasta (Forseti hringir.) fjárfesting kauparéttarhafa sé í raun leiguliðinn (Forseti hringir.) sem borgar veiðiréttinn.