133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

aðgangur að háhraðanettengingu.

508. mál
[15:34]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það kom fram hjá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur að á kynningarfundi á Vestfjörðum hefðu verið gefnar upplýsingar sem ég hef ekki heyrt af þannig að ég get ekki svarað því. Ég var ekki viðstaddur. Það er hins vegar alveg ljóst að það er mjög mikil ánægja með það hjá dreifbýlisfólki að fá þessa bættu þjónustu, bæði á það við um uppbyggingu farsímaþjónustunnar og einnig háhraðatengingarnar.

Ég vil minna á það einnig að á vettvangi ríkisins er unnið að uppbyggingu svokallaðrar Tetra-þjónustu sem er einn þjónustuþátturinn í farsímaþjónustunni sem er fyrst og fremst fyrir lögreglu, almannavarnaþjónustu og björgunarsveitir. Það verður landsdekkandi og er unnið að því.

Hvað vantar mikið af fjármunum svo að ljúka megi öðrum áfanga? Ekki liggja á mínu borði neinar upplýsingar um að til þess vanti fjármuni. Hin pólitíska stefna, hið pólitíska markmið sem sett var fram í fjarskiptaáætluninni og við vinnum eftir var að ljúka þessari háhraðauppbyggingu á árinu 2007.

En það er alveg ljóst að það er mjög háð því hvenær hægt er að koma þessum útboðum á, m.a. vegna þess að það er verið að greina hvar markaðsbresturinn svokallaði er, hvar Fjarskiptasjóður má fara inn. Þess vegna hefur þetta dregist nokkuð og ég geri ráð fyrir því að m.a. af þeirri ástæðu verði það ekki fyrr en í ársbyrjun 2008 sem þessu (Forseti hringir.) verður lokið. Það er af eðlilegum ástæðum en ekki skorti á pólitískum markmiðum.