133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

Grímseyjarferja.

539. mál
[15:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Hann sagði að sá aukakostnaður sem til er kominn væri að megni til vegna óska Grímseyinga. Það er nýtt fyrir mér. Vafalaust hafa eyjarskeggjar haft ákveðna skoðun á hvernig hlutirnir ættu að vera.

Ég minni á það að haft er eftir oddvita sveitarstjórnar Grímseyjarhrepps, Brynjólfi Árnasyni, í Dagblaðinu ekki alls fyrir löngu, að þeir hafi alla tíð verið á móti því að kaupa þetta gamla skip. Ég held að þeir hafi nú fengið töluverð rök upp í hendurnar fyrir því að sennilega hafi það verið röng leið miðað við allan þann aukakostnað sem þarf til að gera skipið fært til þeirrar starfsemi sem það á að vera í, þ.e. að þjóna Grímseyingum og ferðafólki vel í framtíðinni.

Mér finnst full ástæða til að skoða þetta mál miklu betur. Eins og hér hefur komið fram eru þessi ferjumál á sviði Vegagerðarinnar. Þar vinnur vafalaust ágætisfólk. En ég hef verið að velta því fyrir mér hvort þar skorti fagþekkingu á ferjum og skipum. Ég tek skýrt fram að þær upplýsingar sem ég hef sett fram hef ég fengið frá aðilum í skipasmíðabransanum hér á Íslandi. Þeir segja að fullbúinn 29 metra togari kosti 350–400 millj. kr. tilbúinn til togveiða með öllum þeim tækjum sem þarf. Mér er líka sagt að ekki sé mjög mikill munur á stálinu sem notað er í skipið, hvort það er togari eða ferja. En ýmis annar búnaður kemur í ferjuna sem þá dettur út úr togaranum.

Virðulegi forseti. Ef þessar tölur eru réttar finnst mér ástæða til að læra af því. Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra hvort ekki sé full ástæða til að kafa betur ofan í þetta mál og sjá hvort (Forseti hringir.) einhver mistök hafi átt sér stað og hvað hafi farið úrskeiðis.