133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

393. mál
[16:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir greinargott og prýðilegt svar og tek í sjálfu sér undir allt sem hann sagði um markmið stofnananna og hinnar nýju, nái hún fram að ganga. Bæði Landgræðslan og Skógrækt ríkisins hafa skilað mjög stórbrotnum árangri á Íslandi á þeim 100 árum sem þær hafa starfað með einum eða öðrum hætti. Þær hafa afskaplega jákvæða áru og jákvæða ímynd. Þarna blandast saman hugsjónastarfsemi, það besta úr íslenskum landbúnaði og svo margt annað kemur saman í þeim stofnunum þar sem það snertir við flestum ef ekki öllum Íslendingum mikilvægi þess að græða landið. Sé farið um sandana fyrir austan eða annars staðar blasir við öllum hvað þetta er mikilvægt og áríðandi verkefni. Markmiðið er að sjálfsögðu aðeins eitt, eins og hæstv. ráðherra sagði, að vanda þannig til verka að báðar stofnanirnar gangi heils hugar að verkinu og hinni nýju stofnun og það skili okkur í öllum markmiðum betri og markvissari starfsemi á þessum sviðum öllum.

Það eru þrjú ár síðan ég spurði hæstv. ráðherra um þetta og hann tók undir hið pólitíska markmið að sameina stofnanirnar, sem ég er nokkuð sannfærður um að við eigum að einbeita okkur að og setja af stað sameiningarferli sem við þurfum að gefa þann tíma sem þarf að taka. Fyrir liggur eftir þetta svar frá hæstv. ráðherra landbúnaðarmála að það verður ekki á þessu þingi eða þessu kjörtímabili. Það er ekki nema mánuður eftir af þinginu og 90 dagar eftir af kjörtímabilinu. Þetta bíður því nýs þings.

Umræðan hefur alla vega átt sér stað á Alþingi tvisvar eða þrisvar á kjörtímabilinu og liggur fyrir pólitískur vilji í a.m.k. þessum flokkum til að ráðast í verkefnið. Vonandi gengur ný ríkisstjórn að því verki á vori komanda og heldur því áfram.