133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:31]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Rétt skal vera rétt. Á fundi formanna þingflokka með forseta Alþingis í gær stundarfjórðung í 16 gerði ég strax athugasemd við það að lengri áætlunin yrði rædd á undan. Ég sagði að ég teldi eðlilegra að hin skemmri yrði rædd á undan. (Gripið fram í.) Ég fór hins vegar með það mál inn í minn þingflokk, sagði að ég mundi ræða það. Þegar í ljós kom að það var mikill ágreiningur af hálfu þingflokks Samfylkingarinnar við þessa áætlun fór ég þegar af þingflokksfundi og átti sérstakan fund með bæði hæstv. samgönguráðherra og hæstv. forseta og tjáði þeim það. Ég tjáði þeim jafnframt að ef þetta yrði ofan á sem nú virðist raunin yrði því mótmælt í þingsal. Það finnst mér ekki vera aðalatriðið í dag.

Ég vil hins vegar að það komi alveg skýrt fram að á þeim fundi var það upplýst, og ég upplýsi það úr því að hæstv. forseti gerir það ekki, að hæstv. samgönguráðherra hafði óskað eftir því að umræðan yrði tekin saman um þessi tvö mál. Þar kom jafnframt fram að ekki var hægt að verða við því vegna þess að einn tiltekinn flokksbróðir hæstv. samgönguráðherra hafði lagst gegn því máli. Mér finnst alveg sjálfsagt að sá þingmaður njóti réttar síns eins og þingsköp leyfa honum en mér finnst hins vegar jafnsjálfsagt að það komi hér fram sem forseti hefur ekki upplýst hvaða þingmaður þetta var. Það var hv. þm. Halldór Blöndal, fyrrverandi samgönguráðherra. Ástæðan fyrir því að ekki var hægt að verða við þessari ósk hæstv. samgönguráðherra, ósk minni í dag fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar, er að sjálfsögðu sú staðreynd að það er logandi ágreiningur á milli hæstv. samgönguráðherra og fyrrverandi samgönguráðherra, hv. þm. Halldórs Blöndals. Það er ágreiningur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem kemur í veg fyrir að menn geti rætt þetta með þessum hætti og ég tel sjálfsagt að þetta liggi fyrir um leið og menn ganga til þessarar umræðu með þeim hætti sem forseti hefur allt vald til að úrskurða um hvernig verði.