133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. samgönguráðherra er mikill brandarakarl. Hann lætur eins og hann sé alveg nýkominn í samgönguráðuneytið og nú skuli framtíðin blasa við. Hann leggur áherslu á stórframkvæmdir í vega- og samgöngumálum. Hvað hefur hæstv. samgönguráðherra setið lengi í samgönguráðuneytinu? (Gripið fram í: Of lengi.) Hann er kannski búinn að gleyma því. Ég veit að þjóðin er þeirrar skoðunar að hann sé búinn að sitja þar allt of lengi. Hann er búinn að sitja þar í átta ár. Og hvað hefur hann skorið niður vegáætlun oft og mikið öll þessi átta ár? Skar hann ekki niður vegáætlun sem gilti fyrir sl. þrjú til fjögur ár milli 6 og 7 milljarða kr.? Skar hann ekki niður núna það sérstaka fé sem var verið að grobba sig af að ætti að ráðstafa af söluandvirði Símans til vegaframkvæmda á árinu 2007? Skar hann það ekki niður um liðlega 2 milljarða kr.? Hvernig eigum við nú að trúa honum? Vill hann ekki fara yfir fortíð sína, frú forseti?