133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:07]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef sagt áður í dag er ástæðan fyrir því að við teljum okkur geta sett fram svo metnaðarfulla samgönguáætlun núna sú atvinnuuppbygging sem við höfum staðið fyrir í landinu á undanförnum árum og sú efling efnahagslífsins sem hefur orðið. Við þurfum tekjur og við þurfum umsvif til að standa undir miklum fjárfestingum í samgöngumálum, það er alveg ljóst. Það skýtur því skökku við ef menn hafa alveg sérstakar áhyggjur af því að við höldum áfram uppbyggingu atvinnulífsins og styrkingu þess.

Framkvæmdirnar fyrir austan, Kárahnjúkavirkjun og álverið, eru auðvitað af þeirri stærðargráðu að það hlaut að finna fyrir því á vinnumarkaði á Íslandi. Þau áform um stækkun álvera eru ekki af sama tagi hvað það varðar. Ég held að það séu óþarfar áhyggjur sem hv. þingmaður hefur.

Ég ætla aðeins að nefna lengingu flugbrautar á Akureyri. Auðvitað er allt of seint að því verði ekki lokið fyrr en 2009. Framkvæmdir á borð við lengingu flugbrautar á Akureyri þarf að undirbúa. Það er afar sérkennilegt að hér séu uppi kröfur um lengingu flugbrautarinnar, sem ég hef sagt að sé hið besta mál, ef það á að vera á þeirri forsendu að fara eigi að fljúga með fisk á markað erlendis. Það er mjög sérkennilegt, því að þeir sem ætla að fara að gera það hafa ekki gert vart við sig. Ég hef ekki heyrt af því að nokkurt einasta erindi hafi borist hvorki til Flugmálastjórnar né samgönguráðuneytisins um að það eigi að fara að hefja stórfelldan útflutning á fiski um flugvöllinn á Akureyri. Við verðum að hafa einhverjar traustari forsendur fyrir slíkum ákvörðunum en einhverjar sögusagnir um slíkt.

Ég mundi fagna því ef farið yrði að flytja út fisk um flugvöllinn á Akureyri en það eitt út af fyrir sig getur ekki verið meginástæðan, (Forseti hringir.) ekki síst þegar ekki hefur verið komið á framfæri óskum um það.