133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[19:26]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði haldið að engir hv. þingmenn skildu þetta betur en einmitt hv. þm. Jóhann Ársælsson, Skagamaðurinn sjálfur sem er mjög fylgjandi Hvalfjarðargöngum. Hvað gerðist með Hvalfjarðargöng? Við minnumst þess að ýmsir höfðu efasemdir um að fara þá leið að fela einkaaðilum að annast framkvæmdina, annast fjármögnunina og fengju síðan greitt til baka frá ríkinu og síðan mundi ríkið eignast mannvirkið. En þær svartsýnispár sem menn birtu reyndust ekki á rökum reistar og í ljós kom að menn lýstu yfir miklum stuðningi við framkvæmdina og ég hygg að menn séu sammála um það í dag, m.a. formaður Vinstri grænna sem lýsti yfir miklum stuðningi við framkvæmdina í Hvalfjarðargöngum og þá leið sem þar var valin.

Ég tel að skuggagjaldaleiðin sé af nákvæmlega sama toga. Það er tilraun til að prófa nýjar leiðir, til að leysa úr læðingi þá krafta sem búa í atvinnulífinu. Ég tel að við eigum að reyna það, við eigum að láta á það reyna af því að atvinnulífið hefur talið sig geta gert þetta hagkvæmara og skjótvirkara en hinar hefðbundnu leiðir og þá eigum við að kanna það til þrautar hvort framsýnir menn innan atvinnulífsins hafi burði til að standa við þau stóru orð. Ef það er til að flýta framkvæmdum, láta þær ganga hratt og örugglega fyrir sig þá eigum við að vera opin fyrir því.