133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:05]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram í dag mjög athyglisverð umræða um samgönguáætlun og margt athyglisvert hefur komið fram. Ég hlýddi á framsöguræðu hæstv. samgönguráðherra þar sem hann lýsti því fyrir þingi og þjóð að lögð væri fram mjög metnaðarfull samgönguáætlun til ársins 2018.

Ég hlýddi einnig á ræður þingmanna, m.a. ræðu hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur. Hún leiddi okkur aftur í tímann og rifjaði upp hvernig samgönguáætlanir tækju breytingum eftir því hvort kosningar væru í nánd eður ei. Þá kemur á daginn sú undarlega tilviljun, ef tilviljun skyldi vera, að á kosningaári gerast stjórnvöld jafnan mjög metnaðarfull. Þá eru súlurnar um fyrirheit fjárframlaga fram í tímann mjög háar (Gripið fram í: Sem aldrei fyrr.) og súlan nú er há sem aldrei fyrr. Síðan rakti hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir hvernig framlögin hefðu verið skert, frá því að síðasta stóra súla birtist fyrir kosningarnar 2003, um sex milljarða. Vegaféð, hið raunverulega framlag til vegamála, var skert um sex milljarða, að jafnaði um tvo milljarða á ári hverju. Þetta er nú allur metnaðurinn. Metnaðurinn er sem sé í því fólginn að sýnast frammi fyrir kjósendum en þegar á reynir, þegar að framkvæmdinni er komið, eru menn ekki eins stórir í sniðum. Þetta var það fyrsta sem ég staðnæmdist við.

Ég hlýddi einnig af athygli á sama hv. þingmann rekja þróun álags á vegakerfi landsins, hvernig það hefði verið að aukast á undanförnum árum og áratugum, en nú bregður svo við að fé til að halda þessu sama vegakerfi við hefur ekki aukist að sama skapi.

Fyrir nokkrum dögum birtist mjög athyglisverð fréttaskýring í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Allir flutningar út á þjóðveginn“. Þar er mynd af risastórum vöruflutningabifreiðum sem aka á vegi, og þetta er það sem hefur verið að gerast. Þungaflutningar hafa verið að færast út á vegina. Hvernig skyldi standa á því? Ekki er það í samræmi við væntingar leiðarahöfundar Morgunblaðsins sem hann skrifaði á árinu 1992 þegar Skipaútgerð ríkisins var lögð niður. Þá taldi hann að með því að leggja Skipaútgerð ríkisins niður og stuðla að samkeppni á þessu sviði væri björninn unninn. Hér mundi allt vaxa og dafna, hér yrði lífleg samkeppni fjölmargra skipafyrirtækja sem nýttu sér góða hafnaraðstöðu í byggðum á ströndinni.

Sú varð ekki þróunin. Í desembermánuði árið 2004 skýrði Eimskipafélag Íslands, dótturfélag Burðaráss, frá því að til stæði að hætta strandsiglingum í kringum Ísland. Það var reyndar sagt í sömu tilkynningu að afkoma fyrirtækisins væri bráðgóð, það væri bara meiri pening að hafa annars staðar, ekki síst í fjárfestingum erlendis. Þessi aðgerð, sögðu þeir Burðarássmenn, mundi skila 300–400 millj. kr. í svokallaðri hagræðingu eins og það var kallað. Það var hægt að segja upp 40–50 starfsmönnum, mikill áfangi, mikil hagræðing, mikil hryggð, og þar með voru strandsiglingar lagðar af. Að vísu er enn siglt á íslenskar hafnir og statistíkin gefur okkur að vissu leyti falska mynd vegna flutninga í álbræðsluna fyrir austan og í tengslum við framkvæmdirnar þar, þá stórvirkjun sem þar er verið að reisa. En með þessari ákvörðun Sjálfstæðisflokksins 1992, að leggja niður Skipaútgerð ríkisins (Gripið fram í: Og Alþýðuflokksins.) — og Alþýðuflokksins reyndar, það er rétt, það var í samstjórn þessara flokka. Það var reyndar Sjálfstæðisflokkurinn sem fór með samgöngumálin á þessum tíma. Ég minnist þess að þáverandi hæstv. samgönguráðherra hafði mörg orð um það hve mikla skattpeninga verið væri að spara almenningi með því að leggja Skipaútgerð ríkisins niður, það voru tíndir til reikningar sem sýndu fram á mikla niðurgreiðslu.

Hver er niðurgreiðslan þegar hún er komin í vegi sem eiga að anna þessum þungaflutningum? Ég man ekki betur en það hafi verið hv. formaður samgöngunefndar, Guðmundur Hallvarðsson, sem tíundaði, og hefur reyndar oft gert, hve mikið slit er á vegunum af völdum þungaflutninga. Ég minnist þess að hlýða á ræðu þar sem hann sagði að einn drekkhlaðinn þungabíll væri á við 25 til 30 þúsund fólksbíla, ef ég man rétt. Menn hafa spurt um þetta og viljað skoða þetta í margvíslegu ljósi, ekki bara út frá vegunum og kostnaði við þá heldur einnig út frá mengun.

Það var þess vegna sem hv. þm. Jón Bjarnason fór fyrir okkur í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að berjast fyrir því að strandsiglingar yrðu teknar upp að nýju við Ísland. Á hverju ári frá því að hann settist á Alþingi hefur hann flutt það þingmál. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Er ekki komið að því að gera eitthvað róttækt í þessum málum? Við erum ekki endilega að leggja til að Skipaútgerð ríkisins verði sett á fót á nýjan leik. Það er ekkert sáluhjálparatriði þó að ekki eigi heldur að vera bannað að setja upp fyrirtæki í eigu almennings, ef það þjónar sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar. Þetta má gera með margvíslegum hætti. Við höfum heyrt um hugmyndir hjá tilteknum fyrirtækjum um strandsiglingar ef fjárhagslegur grundvöllur yrði skapaður fyrir slíku og þá væri það að sjálfsögðu ríkið sem kæmi þar við sögu.

Við skulum ekki gleyma því samhengi hlutanna sem ég rifja hér upp, að ríkið greiðir til samgöngumála milljarða á milljarða ofan í vegina. Og með því að færa landflutningana að hluta til að nýju út á sjó gætum við hugsanlega sparað mikið fé auk þess sem við værum að draga úr mengunaráhrifum af völdum þessara flutninga.

Ég bíð því eftir því að heyra hvort hæstv. samgönguráðherra er reiðubúinn að beita sé fyrir því í alvöru að hugað verði að þingmálinu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur borið fram á hverju ári undanfarin ár, um að fjármagn verði sett í strandsiglingar og við reynum að gera átak í því að færa þungaflutninga af landinu og á sjó út. Í því yrði mikið hagræði fólgið. Ég minnist þess að þegar við höfum rætt þetta hér í þinginu hafa menn úr öllum flokkum tekið undir þetta. Ég minnist þess að hafa hlýtt á hv. formann samgöngunefndar taka undir þessi sjónarmið og hagræðið sem af þessu gæti hlotist. Ég spyr hvort ekki sé ráð núna á síðustu metrum þessa kjörtímabils að við myndum þverpólitíska sátt um stórátak í þessum efnum.

Til þess að draga ekki úr þeirri alvöru sem býr að baki ætla ég að sinni ekki að fara út í að ræða annað hugðarefni mitt, sem er sameiginlegt áhugamál mitt og hæstv. samgönguráðherra en með öfugum formerkjum, þ.e. einkaframkvæmd í samgöngumálum. Það ætla ég að gera í seinni ræðu minni. En ég hefði mjög gaman af því að heyra viðhorf hæstv. samgönguráðherra og hv. formanns samgöngunefndar Alþingis, hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, við þeim hugmyndum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur hamrað á á undanförnum árum. Við höfum á hverju ári lagt fram þingmál og rækilegan og ítarlegan rökstuðning fyrir því að teknar verði að nýju upp strandsiglingar með stuðningi ríkisins.