133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg skýrt af minni hálfu. Við erum að fara yfir þessar hugmyndir og þá m.a. hvernig hægt er að standa að hugsanlegri sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Við erum að fara yfir þær hugmyndir sem hafa verið reifaðar við okkur. Við höfum líka komið fram með ákveðnar hugmyndir af okkar hálfu um hvað hægt er að gera til að efla starfs- og iðnnám í landinu. Við vitum alveg og það hefur m.a. verið samhljómur innan þessa salar, að við viljum gera margt til að efla og styrkja stöðu starfsnáms á Íslandi. Hluti af því er að efla enn frekar tengsl atvinnulífsins við starfsnámið. Um það höfum við, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, verið sammála. Þess vegna ber mér að sjálfsögðu skylda til þess að fara gaumgæfilega yfir þær hugmyndir sem nú eru á mínum borðum varðandi hugsanlega sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands.

Það er ekki komið að ákvarðanatöku því margt á eftir að skoða og huga betur að. Ég vil m.a. geta þess að í þessu sambandi hafa verið ræddar ýmsar hugmyndir í tengslum við svonefnda fagháskóla. Það mál þarf að skoða mun betur en gert hefur verið og við þurfum að fara m.a. yfir þau mál miklu betur til að hægt verði að taka ákvörðun í tengslum við þá sameiningu sem tengist framhaldsskólaumræðunni. En málið er ekki komið á það stig að hægt sé að taka ákvörðun hér og nú.