133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

[15:24]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Byggðaráð Skagafjarðar bókaði eftirfarandi á fundi þann 23. janúar sl., með leyfi forseta:

„Fyrir dyrum stendur undirritun vaxtarsamnings Norðurlands vestra sem áformuð er þriðjudaginn 30. janúar nk. Fulltrúar úr sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar, ásamt sveitarstjóra, áttu af því tilefni óformlegan fund föstudaginn 19. janúar sl. með forsvarsmönnum atvinnufyrirtækja í Skagafirði, sem ráð er fyrir gert að eigi beina aðild að samningnum. Var fundurinn haldinn að frumkvæði þeirra. Eftir vandlega yfirferð málsins komust aðilar að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að fara þurfi betur yfir ýmis atriði áður en lokið er gerð vaxtarsamnings fyrir Norðurland vestra, svæði sem samkvæmt nýlegri skýrslu Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er eitt tveggja svæða á landinu þar sem hagvöxtur var minni en enginn eða -6% á árunum 1998–2004. Fram komu miklar efasemdir um að samningurinn eins og hann lítur út samkvæmt fyrirliggjandi drögum skili árangri í uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu, og mun meira fjármagn og frekari aðgerðir þurfi til. Byggðaráð Skagafjarðar fer þess því á leit við aðstandendur vaxtarsamningsins að formlegri undirritun hans verði frestað um sinn og felur sveitarstjóra að koma óskinni á framfæri við hlutaðeigandi aðila og óska jafnframt eftir því við iðnaðarráðherra að komið verði á fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og heimamanna til að ræða veika stöðu Norðurlands vestra …“

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að norðanmenn hafi nokkuð til síns máls í gagnrýni sinni á þau samningsdrög sem fyrir liggja og ef svo er, hvernig hann hyggist koma til móts við íbúa Norðurlands vestra.