133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta sýnir afstöðu hæstv. ráðherra. Ég bendi honum á að þingsályktunartillagan fer til samgöngunefndar til meðferðar. Hvort sem ráðherra líkar það betur eða verr fer hún þar til meðferðar og (Samgrh.: Mér líkar það mjög vel því að það er lögboðið.) samgöngunefnd fer þá yfir hana og gerir þær breytingar sem þarf.

Hitt vil ég ítreka að það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn, það verður að vera fjármagn til að ráðast í þessar framkvæmdir. Það verður líka að vera svigrúm í efnahagskerfinu. Í þessari fjögurra ára áætlun er gert ráð fyrir líklega einum 10 milljörðum kr. í fjármögnun bara út í loftið, ekkert sagt hvar eigi að taka það fé, einkaframkvæmd, lánsfé eða hvað. Mér finnst það óábyrgt. (Samgrh.: Hvernig vill þingmaðurinn taka á því?) Ráðherra á að taka afstöðu til þess að þarna skuli ráðist í þetta, en ekki með einhverjum loðnum yfirlýsingum um með hvaða hætti verði unnið.

Hæstv. ráðherra sagði sjálfur í ræðu áðan að hann hefði orðið að fresta framkvæmdum í sumar, vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi, vegna stóriðjuþenslunnar. Þetta voru orð ráðherra sjálfs þannig að þetta sýnir í hnotskurn hvernig þetta hefur verið. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við ræðum samgönguáætlun að átta okkur á að hún er ekkert einangrað fyrirbrigði. Hún verður að fá pláss í efnahagskerfi þjóðarinnar. Rökin fyrir niðurskurði í samgönguáætlun og vegaframkvæmdum á síðustu árum hafa verið þessi gríðarlega uppbygging stóriðju. Ef ætlunin er að halda því áfram, eins og sumir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað hér í ræðustól, verður ekki svigrúm fyrir þessar framkvæmdir sem hæstv. ráðherra mælti fyrir, sem allar eru brýnar og nauðsynlegar og ég ítreka það. Og þó að hæstv. samgönguráðherra segði hér, og ég tek undir það með honum, að þessar vegaframkvæmdir ættu nú að hafa forgang hafa þær ekki haft það síðustu árin eins og raun ber vitni í þeim niðurskurði sem hefur verið framkvæmdur. Það verður að hafa í huga.

Í seinni ræðu minni kem ég inn á (Forseti hringir.) einstakar framkvæmdir, frú forseti.