133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:05]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil beina því nefndarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd að taka sér góðan tíma til að skoða þetta mál. Það vill svo til að nú er verið að flytja þessi málefni frá iðnaðarnefnd og til efnahags- og viðskiptanefndar. Þess vegna eru þeir þingmenn sem þar sitja kannski ekki alveg jafnkunnugir þessu máli og við hin sem höfum setið í iðnaðarnefnd.

Þessi mál hafa auðvitað verið til umræðu býsna mikið í Alþingi, ég reikna því með að allir þingmenn hafi á þeim skoðanir og hafi fylgst með því hvernig hefur gengið að koma á samkeppnisumhverfi í raforkugeiranum á Íslandi.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði um það áðan að menn hafi gert sér grein fyrir að þetta yrði erfitt. En hæstv. ráðherra er því marki brenndur, eins og kannski fleiri í ríkisstjórninni, að vera fljótur að hlaupa til ef koma boð frá forstjóra Landsvirkjunar eða öðrum slíkum í kerfinu og treysta þeim ráðum sem þeir menn gefa ríkisstjórninni. Nú er þrýst frá forstjóra Landsvirkjunar á það að eigið fé Landsvirkjunar verði styrkt með því að gera Landsvirkjun að eiganda að þeim fyrirtækjum sem hér er um að ræða.

Ríkisstjórnin er í þeim vandræðagangi að hún telur ekki aðrar leiðir opnar en þessar, að þetta verði leiðin til að styrkja eigið fé Landsvirkjunar en um leið kastar hún út í hafsauga þeim fyrirætlunum að auka samkeppni á raforkumarkaðnum vegna þess að hún er að slá saman öllum helstu fyrirtækjum á þessu sviði með þeim ákvörðunum sem menn stefna hér að. Þetta er auðvitað kolröng leið í málinu og ætti ríkisstjórnin að leita eftir öðrum leiðum til að styrkja eigið fé Landsvirkjunar en þessari. Ég held því að menn þurfi að skoða þessi mál betur, sérstaklega hvað varðar samkeppnisumhverfið.

Ég vil nefna að t.d. í Noregi leggja menn bann við því að samkeppnisfyrirtæki eigi í einokunarfyrirtæki eins og hér er áætlað að gera. Þeir leggja bann við því. Og það er komin einhver Evróputilskipun sem hefur númerið 54/EC/2003, þar sem slíkt er bannað líka. Það gæti vel verið að menn fengju þetta líka í höfuðið, eins og menn hafa fengið í höfuðið samrunann sem var búinn til úr fjarskiptahluta Landsvirkjunar og Símanum og menn voru að sættast á að borga stórfé fyrir að hafa ætlað í þann leiðangur.

Ég held nefnilega að ríkisstjórnin verði að gera sér grein fyrir að það eru ekkert endilega holl ráð sem hún fær frá þessum forstjóra Landsvirkjunar þegar kemur að samkeppnisumhverfi. Því hann vill að Landsvirkjun sé eina fyrirtækið í orkuframleiðslu og sölu á landinu virðist vera. Stefnir að því leynt og ljóst að Landsvirkjun yfirtaki allan raforkugeirann sem um er að ræða.

Þetta er vissulega mikið umhugsunarefni og málið er núna verra að því leyti til en það var í haust, að það sýnir, eins og stundum er sagt, einlægan brotavilja. Menn gáfust ekki upp með málið þó þeir þyrftu að gefast upp með það í haust, þá eru þeir mættir til leiks aftur. Hæstv. fjármálaráðherra núna í stað iðnaðarráðherra. Hefur líklega talið sig meiri afreksmann en hann í því að koma þessu máli í gegnum Alþingi.

Ég hvet því nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd til að skoða mjög vandlega hvað þarf að fara yfir, hvaða hugmyndir menn eru með um að styrkja eigið fé Landsvirkjunar, hvort þær eru ekki til fleiri en þessi.

Það virðist nú vera að stundum hafi Landsvirkjun býsna mikla peninga. Ég sá ekki betur en að frétt kæmi núna í vikunni um að Landsvirkjun hefði verið að stofna nýtt fyrirtæki til útrásar með 2 milljarða kr. framlagi. Ekki voru blankheitin þann daginn hjá Landsvirkjun.

Ég ætla svo sem ekkert að halda því fram að ekki þurfi að styrkja eigið fé hennar eftir hinar miklu fjárfestingar í virkjuninni við Kárahnjúka sem eru búnar, og líka ef menn ætla í nýjar fjárfestingar í virkjun Þjórsár. Þetta þarf að skoða og skoða þarf vandlega hvort þessi leið er yfirleitt fær vegna samkeppnisaðstæðna og vegna þeirra markmiða sem eðlilegt væri að hafa uppi hvað varðar samkeppnisumhverfi í raforkugeiranum.

Það er margt sem væri gaman að ræða með þessu máli. Menn hafa vissulega á því misjafnar skoðanir eftir því hvar þeir eru staddir. Þeir sem búa á svæðum þar sem Rarik og Orkubú Vestfjarða hafa starfssvæði hafa miklar áhyggjur af þessu, eðlilega, og starfsmenn þessara fyrirtækja. Þeir höfðu vonast til að ef af einhverjum slíkum breytingum yrði þá yrði sjálfstæði fyrirtækjanna tryggt.

En hér er stefnt að því að gera þessi fyrirtæki að dótturfélögum Landsvirkjunar. Allt í þeim eina tilgangi að auka eigið fé Landsvirkjunar. Það er jú sagt í frumvarpinu að gert sé ráð fyrir því að hægt sé að hagræða í rekstri. Hvar? Hjá þessum tveimur fyrirtækjum, Orkubúi Vestfjarða og Rarik. Það er hagræðingin sem á að nást út úr þessu.

Hins vegar er alveg hægt að ná þeirri hagræðingu með öðrum aðferðum. Þar gætu menn skoðað fyrirtækin hvert fyrir sig eða saman, þessi tvö, án þess að Landsvirkjun væri þar hleypt að kötlunum

En þannig er að forstjóri Landsvirkjunar er yfir og undir og allt um kring í öllum þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar og stefnt er að að taka í þessum málum. Mér er kunnugt um að hann hefur sent forstjóra Rariks tölvupóst þar sem hann segir að sú leið sé einungis fyrsta skrefið og mjög fljótlega verði stofnuð rekstrareining um framleiðsluna, segir forstjóri Landsvirkjunar í þeim tölvupósti. Hann veit því sínu viti um hvað stjórnvöld ætla að gera í framtíðinni en það er svo sem ekki endilega víst að hann sé búinn að segja þeim það núna. En greinilegt er að hann stefnir að því að svona verði með málin farið.

Þannig er þetta mál. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta núna. Ég bendi á að sporin hræða hvað varðar samkeppnisvitund þeirra sem þarna ráða ríkjum og stjórna. Því er ástæða fyrir Alþingi að taka þessi mál og skoða þau vandlega. Ég tel að skynsamlegast sé að leita annarra leiða til að styrkja eigið fé Landsvirkjunar úr því á því þarf að halda, sem er greinilega skoðun ríkisstjórnarinnar líka, ekki bara forstjóra Landsvirkjunar.

Það er verkefni sem getur kostað mikla peninga og það verður þá að hafa það. Mér skilst að ýmislegt sé nú hægt, að minnsta kosti miðað við það sem menn guma af hvað ríkissjóður getur. Ég er á þeirri skoðun að það sé meira um vert að menn búi til einhvers konar umhverfi í raforkugeiranum til framtíðar sem er trúverðugt frekar en að menn stytti sér þessa leið til að gera Landsvirkjun kleift að lifa af einhver ár á meðan hún er að komast yfir helstu hjallana í fjárfestingarálaginu sem verður vegna virkjunarframkvæmda.