133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:39]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að það er grundvallarmunur á stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins, a.m.k. forustumanna Framsóknarflokksins í því hvernig haldið er á markaðsvæðingu raforkukerfisins. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að raforkan sé hluti af grunnþjónustu fyrir almenning, heimili og atvinnulíf í landinu og eigi ekki að vera markaðsvara per se.

Ég hygg að margir framsóknarmenn séu reyndar sömu skoðunar og sumir hafa sýnt það í verki. Ég vil árétta það sem ráðherra sagði og biðja hæstv. iðnaðarráðherra að vera sjálfum sér samkvæmur þegar hann viðurkennir að þessi mál hafa ekki gengið með þeim hætti í Evrópu sem vænst var til, fjarri því og ég hef bent á skýrslur þar að lútandi. Markaðurinn hér á landi er miklu minni og þess vegna enn þá minni líkur til þess að einhver kerfi sem hafa mistekist í miklu stærra raforkuumhverfi henti hér á landi. Bara af og frá.

Ef maður vill vera sjálfum sér samkvæmur og viðurkenna að ekki sé allt með felldu, að ekki hafi allt gengið sem skyldi, þá segir maður stopp. En frumvarp þar sem lagt er til að Rarik og Orkubú Vestfjarða gangi í Landsvirkjun sem liður í markaðs- og einkavæðingarferlinu sem hefur staðið yfir síðustu ár, gengur þvert á þá hagsmuni sem við höfum talað um. Þess vegna á maður að segja stopp. Förum yfir málin og segjum stopp. Þá værum við að viðurkenna raunveruleikann.

Ég held að þjóðin vilji ekki frekari markaðsvæðingu, ekki frekari fákeppni, ekki frekari einokun í raforkukerfinu. Ég held að þjóðin vilji stoppa og forustumenn Framsóknarflokksins ættu að taka tillit til þess, sama hversu mikinn áhuga þeir hafa á markaðsvæðingu og einkavæðingu raforkukerfisins.